Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er tíundi formaðurinn til að setjast í formannsstól Fréttablaðsins.
Í formannsstólnum svara leiðtogar flokka sem bjóða sig fram til Alþingis misalvarlegum spurningum blaðamanna Fréttablaðsins. Allir leiðtogar flokkanna fengu sömu spurningar sendar í tölvupósti og hafa svör þeirra birst á vefnum undanfarna daga.
Sigmundur Davíð er úr Breiðholtinu. Hans fyrsta vinna þegar hann var 12 ára var að skrapa ryð og mála handrið. Hann starfaði svo á Esso með skóla og á sumrin. Fyrstu árin sem starfsmaður á plani og loks sem starfsmaður í verslun. Svo vann Sigmundur í Fríhöfninni, á aðalbrautarstöðinni í Stokkhólmi, sem starfsnemi hjá þýska iðnaðar- og viðskiptaráðinu og á Ríkisútvarpinu.
Sigmundur var í námi við Háskóla Íslands og í Kaupmannahöfn, Moskvu og loks í Oxford í Bretlandi. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum óvænt í lok árs 2008 og útskýrir að það hafi verið eftir að vöskum hópi fólks austan af landi hafði tekist að útskýra fyrir honum að hann ætti að fara í stjórnmál.
Notar fornafnið Ég

1.Hvað ertu gamall/gömul?
Miðað við nýjustu útreikninga er ég 46 ára.
2. Hvaða fornafn notarðu? Hann/Hún/Hán?
Ég.
3. Hvaða flokk ertu í framboði fyrir og hvaða kjördæmi?
Miðflokkinn í Norðausturkjördæmi
4. Áttu heima í kjördæminu sem þú býður þig fram í?
Ég bý í grennd við vinnustaðinn, á höfuðborgarsvæðinu.
5. Hvers vegna býður þú þig fram?
Vegna þess að ég hef séð að það er hægt að gera raunverulegar breytingar, standa við kosningaloforð, innleiða skynsemi og ryðjasti í gegnum hindranirnar sem mæta manni alltaf þegar maður vill gera breytingar sem skipta máli.
6. Um hvað snúast Alþingiskosningarnar 2021 fyrir þér?
Það hvort skynsemishyggja á enn séns í heimi ímyndarstjórnmálanna.
7. Ef þú fengið að velja: Hvaða ráðherraembætti myndirðu vilja og af hverju?
Það væri mjög óskynsamlegt að fara í stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar en augljóslega þau ráðuneyti sem hafa mest áhrif.
8. Kosningar eru afstaðnar. Þinn flokkur er í stjórnarandstöðu. Hver væri þín afstaða til þess að vinna með stjórninni? Hvernig myndir þú haga þér í stjórnarandstöðu?
Það fer algjörlega eftir því hvað stjórnin myndi gera. Ég mun hér eftir sem hingað til taka afstöðu til mála eftir innihaldinu, ekki því hvaðan áformin koma.
9. Hvernig hefur þér þótt starfsandinn á Alþingi síðustu fjögur ár? (ef á við)
Verri en hann ætti að vera en betri en margir halda. Ef menn halda sig við að rífast um stefnu en ekki persónuníð geta þingmenn verið bestu vinir óháð skoðunum.
10. Afglæpavæðing neysluskammta: Já eða nei?
Lögleiðing fíkniefna, nei.
Uppáhaldsfríið bústaður á Héraði og lestur bóka

11. Hver er þín fyrirmynd í stjórnmálum?
Margir, það dugar ekki að líta bara á einn. En til að nefna einhverja mætti nefna Abraham Lincoln, Woodrow Willson og Gustav Stresemann.
12. Ert þú femínisti?
Nei, ég er jafnréttissinni.
13. Hvað finnst þér um börn?
Ég er mjög hlynntur þeim.
14. Uppáhalds hreyfing eða æfing?
Göngutúrar.
15. Hvernig myndir þú lýsa mataræði þínu?
Takmarkað þessa dagana en almennt íslenskt.
16. Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi og af hverju?
Ef á að neyða mann til að nefna einn, sem er þó ekki raunhæft, verð ég að leita í æskuminningarnar með afa og nefna Reykhólasveit.
17. Hvert er þitt draumafrí?
Að vera í bústað á Héraði og lesa bækur.
18. Hefurðu fengið Covid? Ertu bólusett/ur? Með hverju? Ef ekki, af hverju ekki?
Hef ekki fengið Covid og er bólusettur með Pfizer x2.
19. Hefur þú þurft að breyta lífi þínu á einhvern hátt vegna Covid? Ef svo, hvernig og heldurðu að sú breyting haldi?
Augljóslega, eins og allir. Vona að hún haldi ekki um of. Ég nái að hitta fólk í eigin persónu frekar en á Zoom og ná af mér öllum kílóunum sem bættust við í Covid.
Best að hætta við Borgarlínu

20. Erum við orðin of sein til að bregðast við loftslagsvánni?
Nei, en það er ekki verið að gera það á réttan hátt.
22. Hvernig fer umferðin í þig? Hvernig er best að leysa vandann?
Hún pirrar mig. Best er að leysa vandann með því að hætta við Borgarlínu og ráðast í framkvæmdir til að laga samgöngukerfið og bæta ljósastýringu.
23. Hver er þinn uppáhalds sjónvarpsþáttur?
Jeeves and Wooster
24. Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana og það síðasta sem þú gerir á kvöldin?
Að lesa greinar og fréttir.
25. Ef þú þyrftir að flýja Ísland án fyrirvara, hvernig myndir þú vilja að það væri tekið á móti þér í öðru landi?
Ég vona að Færeyingar tækju mér vel.
