Inga Sæland er formaður Flokks fólksins og sjötti formaðurinn til þess að setjast í formannsstól Fréttablaðsins.
Í formannsstólnum svara leiðtogar flokka sem bjóða sig fram til Alþingis misalvarlegum spurningum blaðamanna Fréttablaðsins. Allir leiðtogar flokkanna fengu sömu spurningar sendar í tölvupósti og verða svör þeirra birt næstu daga á vef blaðsins.
Inga er lögfræðingur að mennt og fædd og uppalin norður á Ólafsfirði. Hún missti sjónina sem lítið barn og er löggblind. Hún segir það hafa mótað þann baráttuvilja sem hún er blásin af.
Það mætti segja um Ingu að það fari enginn leiður frá henni en hún er gríðarlega hæfileikarík og tók meðal annars þátt í hæfileikaþættinum X Factor sem sýndur var á Stöð 2. Í samtali við Fréttablaðið sagði hún eitt sinn um sig og sinn flokk: „Við erum komin til að sjá og sigra, Sigurjón digra.“

Væri til í að vera fjármálaráðherra
1.Hvað ertu gamall/gömul?
Ég er 62 ára
2. Hvaða fornafn notarðu? Hann/Hún/Hán?
Ég er hún
3. Hvaða flokk ertu í framboði fyrir og hvaða kjördæmi?
Ég er formaður Flokks fólksins og oddviti í Reykjavík suður
4. Áttu heima í kjördæminu sem þú býður þig fram í?
Já
5. Hvers vegna býður þú þig fram?
Ég vil útrýma óréttlæti, misskiptingu og fátækt á Íslandi
6. Um hvað snúast Alþingiskosningarnar 2021 fyrir þér?
Þær snúast um velferð, að brjóta múra og bæta kjörin. Fæði, klæði, heilbrigði og húsnæði fyrir alla. Lífsgæði eru ekki einkaréttur útvalinna.
7. Ef þú fengið að velja: Hvaða ráðherraembætti myndirðu vilja og af hverju?
Fjármálaráðherra af því að þá gæti ég séð til þess að lágmarksframfærsla yrði 350.000 kr. skatta og skerðingalaust
8. Kosningar eru afstaðnar. Þinn flokkur er í stjórnarandstöðu. Hver væri þín afstaða til þess að vinna með stjórninni? Hvernig myndir þú haga þér í stjórnarandstöðu?
Ég myndi vinna með ríkisstjórninni varðandi þau mál sem ég teldi að væru góð mál og tryggðu fólkinu í landinu aukna velferð og réttlæti.
Ég myndi haga mér eins og ég hef gert í stjórnarandstöðu til þessa, leggja fram öll þau þingmannamál sem ég get til að berjast fyrir þá sem kusu mig á þing. Halda áfram þeirri vegferð Flokks fólksins að útrýma fátækt. Brjóta múra og bæta kjörin.
9. Hvernig hefur þér þótt starfsandinn á Alþingi síðustu fjögur ár? (ef á við)
Almennt séð myndi ég segja að starfsandinn á Alþingi væri mjög góður þrátt fyrir marga flokka og ólík sjónarmið.
10. Afglæpavæðing neysluskammta: Já eða Nei?
Of snúið til að segja annað hvort.
11. Hver er þín fyrirmynd í stjórnmálum?
Vilmundur Gylfason heitinn, blessuð sé minning hans.
12. Ert þú femínisti?
Já við erum öll feministar og viljum jafnrétti fyrir alla. En mér finnst dapurt hvernig hugtakið hefur öðlast neikvæða merkingu í öfgunum sem því eru tengd.

Finnst þetta skrítin spurning en elskar börn
15. Hvað finnst þér um börn?
Stórskrítin spurning en svar mitt er auðvelt. Ég elska börn.
14. Uppáhalds hreyfing eða æfing?
Hjóla og synda
15. Hvernig myndir þú lýsa mataræði þínu?
Seinni árin, óreglulegt og ekki til fyrirmyndar
16. Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi og af hverju?
Ólafsfjörður því þar er ég fædd og alin upp, umvafin kyrrð og fegurð fjalla og nánd við allt fólkið í bænum.
17. Hvert er þitt draumafrí?
Fjögurra vikna áreitislaus tími í faðmi fjölskyldunnar.
18. Hvaða mál nýtur of lítillar athygli stjórnmálamanna að þínu mati?
Raunveruleikinn sem snýr að fátækt tug þúsunda Íslendinga og menntamálin sem eru í miklum ólestri.
Fólki úthýst frá námi vegna húsnæðisskorts ásamt því að þriðjungur drengja og fjórðungur stúlkna útskrifast út 10. bekk illa læs eða með lélegan lesskilning. Þetta er algjör þjóðarskömm.
19. Hefurðu fengið Covid? Ertu bólusett/ur? Með hverju? Ef ekki, af hverju ekki?
Nei ekki fengið Covid, já bólusett með Pfizer.

Ósátt við borgarstjórn
20. Hefur þú þurft að breyta lífi þínu á einhvern hátt vegna Covid? Ef svo, hvernig og heldurðu að sú breyting haldi?
Já mjög mikið, þurfti að vinna heima um langan tíma þar sem hjá mér býr aldinn faðir minn og maðurinn minn með undirliggjandi sjúkdóma.
Eftir að við fórum öll í bólusetningu hef ég hins vegar ekki látið Covid hamla mér nema hvað lítur að samkomum þar sem hópar koma saman og hef hugað vel að eigin sóttvörnum.
21. Erum við orðin of sein til að bregðast við loftslagsvánni?
Nei við erum það ekki, en það þarf sameiginlegt átak allra þjóða og á ekki síst þeirra sem menga lan mest , þjóða sem virðast ekki ætla að viðurkenna þá ógn sem að jörðinni okkar steðjar og það af mannavöldum.
22. Hvernig fer umferðin í þig? Hvernig er best að leysa vandann?
Það er með hreinum ólíkindum hvernig borgarbúar hafa verið hnepptir í algjörlega ástæðulausar umferðarteppur og við látin eyða allt að tveimur tímum á dag í að koma okkur úr og í vinnu. Þeim væri í lófa lagið að greiða fyrir umferð með t.d ekki flóknari aðgerð en ljósastýringu umferðaljósanna.
Í staðinn þrengja þeir stöðugt að einkabílnum eyðileggja bílastæðin og virkilega halda að við séum öll meira eða minna klár í almenningssamgöngur eða hjól. Eina von borgarbúa á bættari umferðarmenningu er að losa sig við þessa borgarstjórn strax í vor og virða frelsi einstaklingsins í að velja sinn ferðamáta sjálfur.
23. Hver er þinn uppáhalds sjónvarpsþáttur?
Akkúrat núna þá er það, The good doctor.
24. Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana og það síðasta sem þú gerir á kvöldin?
Fer framúr og fæ mér svart kaffi og rétt áður en ég loka augunum á koddanum á kvöldin set ég kveiki ég á Story tel sem nær að svæfa mig á ca. 1 mín.
25. Ef þú þyrftir að flýja Ísland án fyrirvara, hvernig myndir þú vilja að það væri tekið á móti þér í öðru landi?
Að ég væri boðin velkomin.
