Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er varaformaður þingflokks Pírata og fimmti leiðtogi stjórnmálaflokka til þess að setjast í formannsstól Fréttablaðsins.
Í formannsstólnum svara leiðtogar flokka sem bjóða sig fram til Alþingis misalvarlegum spurningum blaðamanna Fréttablaðsins. Allir leiðtogar flokkanna fengu sömu spurningar sendar í tölvupósti og verða svör þeirra birt næstu daga á vef blaðsins.
Þórhildur er sprenglærður lögfræðingur en hún kláraði LLB í alþjóða og Evrópulögum í háskólanum í Groningen og LLM í Alþjóðlegum refsirétti og mannréttindum í háskólanum í Utrecht í Hollandi.
Hún starfaði sem blaðamaður og sjálfstætt starfandi sérfræðingur áður en hún var kjörin á þing fyrir Pírata 2016 og 2017. Hún hefur gegnt stöðu þingflokksformanns og verið formaður Íslandsdeilar Evrópuráðsþingsins, formaður laga-og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar og gegnir nú stöðu varaformanns þingflokks Pírata.
Sumir kalla heimabæinn Pizzabæ
1.Hvað ertu gamall/gömul?
34 ára.
2. Hvaða fornafn notarðu? Hann/Hún/Hán?
Hún.
3. Hvaða flokk ertu í framboði fyrir og hvaða kjördæmi?
Pírata, oddviti í Suðvesturkjördæmi.
4. Áttu heima í kjördæminu sem þú býður þig fram í?
Já, ég bý á æskuslóðunum í Mosfellsbæ (en sumir kalla hann Pizzabæ)
5. Hvers vegna býður þú þig fram?
Vegna þess að ég vill leggja mitt af mörkum til þess að skapa réttlátara samfélag fyrir öll. Samfélagið okkar er hvorki sjálfbært né réttlátt og Píratar eru flokkur sem þorir að framkvæma þær stóru breytingar sem ráðast þarf í til þess að takast á við stærstu áskoranir framtíðarinnar; misskiptingu og loftslagsbreytingar.
Við höfum sýnt það og sannað að við meinum það sem við segjum og segjum það sem við meinum og erum óhrædd við að takast á við sérhagsmunaöflin í samfélaginu í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi fyrir öll.

Klaustursmálið og meint afsökunarbeiðni til Piu Kjærsgaard
6. Um hvað snúast Alþingiskosningarnar 2021 fyrir þér?
Þessar kosningar snúast um réttláta uppbyggingu eftir Covid og réttlát umskipti vegna loftslagsbreytinga. Núverandi ríkisstjórn hefur verið allt of metnaðarlaus í viðbrögðum sínum við loftslagsbreytingum og við getum ekki beðið í fjögur ár í viðbót til þess að taka til hendinni.
Við verðum að byggja upp betra og réttlátara samfélag eftir efnahagshöggið sem Covid veitti okkur með sérstakri áherslu á viðkvæmustu hópana og græna innviði. Píratar eiga sér ítarlega stefnu um þessa framtíðarsýn sem við köllum velsældarsamfélagið.
7. Ef þú fengið að velja: Hvaða ráðherraembætti myndirðu vilja og af hverju?
Þau valdamestu, vegna þess að þar þarf virkilega að taka til hendinni.
8. Kosningar eru afstaðnar. Þinn flokkur er í stjórnarandstöðu. Hver væri þín afstaða til þess að vinna með stjórninni? Hvernig myndir þú haga þér í stjórnarandstöðu?
Í grunnstefnu Pírata segir að við styðjum góð mál, sama hvaðan þau koma. Barátta Pírata fyrir þungunarrofsfrumvarpi heilbrigðisráðherra er gott dæmi um þetta viðhorf Pírata í verki.
Við studdum málið vegna þess að þetta var gott mál og við vorum fylgjandi því, óháð því hver lagði það fram. Aftur á móti veitum við virkt aðhald með stjórninni, enda mikilvægt hlutverk stjórnarandstöðu.
9. Hvernig hefur þér þótt starfsandinn á Alþingi síðustu fjögur ár? (ef á við)
Samráðsleysi ríkisstjórnarinnar hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Sérstaklega í Covid. Ríkisstjórnin hefur aldrei haft stjórnarandstöðuna með í ráðum, hvað þá látið hana vita af sínum fyrirætlunum í aðgerðum sínum vegna heimsfaraldursins fyrr en kannski rétt fyrir blaðamannafund.
Mér fannst það gera okkur í stjórnarandstöðu mjög erfitt fyrir, bæði hvað varðar aðhald gagnvart stjórninni en líka gagnvart samstarfi við stjórnina í stórum málum sem allt þingið gat auðveldlega sameinast um að vinna vel saman.
Klaustursmálið gerði starfsandann á þingi mjög lélegan í talsverðan tíma á eftir og það virkaði mjög truflandi að forsætisnefnd og siðanefnd tóku sér allt of langan tíma til þess að afgreiða siðareglumál Klaustursfólksins.
Mér fannst til dæmis mjög sérstakt að niðurstaða í kvörtun Ásmundar Friðrikssonar gegn mér og Birni Leví kom langt á undan niðurstöðu í Klaustursmálinu þó svo að Klaustursmálið hafi komið inn löngu fyrr. Og það eyðilagði auðvitað svolítið starfsandann að samstarfsfélagar mínir skyldu komast að þeirri niðurstöðu að ég hafi brotið af mér fyrir að segja sannleikann.
Mest svekkjandi var að sjá Samfylkinguna kvitta undir þetta rugl. Líka mjög súrt þegar Steingrímur J. Sigfússon bað Piu Kjærsgaard afsökunar fyrir mína hönd af því að ég mætti ekki til þess að hlusta á ræðuna hennar á hátíðarfundi Alþingis. Mér fannst ótrúlega lélegt af forseta Alþingis að vanvirða sannfæringu Alþingismanns á þennan hátt.
Inn á milli er svo bara fín stemning á þingi. Flestir þingmenn eru fínasti félagsskapur og það er alveg gaman að skemmta sér með þeim í þingveislum og svona.
10. Afglæpavæðing neysluskammta: Já eða Nei?
Auðvitað.

Langar að prófa að fara í sólarlandaferð
11. Hver er þín fyrirmynd í stjórnmálum?
Alexandria Ocasio-Cortez, Halldóra Mogensen, Jóhanna Sigurðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Jacinda Arden, Angela Merkel, Vilmundur Gylfason og Jón Gnarr.
12. Ert þú femínisti?
Já
13. Hvað finnst þér um börn?
Frábær, á eitt mjög nýlegt sjálf. Mér finnst meira að segja horið hans sætt.
14. Uppáhalds hreyfing eða æfing?
Gleyma sér í þingflokksherberginu og þurfa að hlaupa í pontu Alþingis. Það eru til nokkur myndbönd af mér að ná andanum í pontu.
15. Hvernig myndir þú lýsa mataræði þínu?
Við hjónin reynum eftir bestu getu að borða lágkolvetnafæði og mikið af grænmeti en það hefur ekki verið að takast alveg nógu vel núna í kosningabaráttunni með barn og hund og alls konar annað í gangi. Við erum búin að ákveða að við ætlum að draga úr og hætta svo að borða kjöt eftir kosningar, við eigum stöðugt erfiðara með að réttlæta þetta eftir að sonurinn fæddist.
16. Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi og af hverju?
Ég á mjög erfitt með að velja. Vestfirðirnir eru stórfenglegir og þar er Látrabjarg, sem mér finnst fallegasti staður í heimi en svo er margt frábært á Snæfellsnesinu sem ég sæki oft í til þess að róa andann og slaka á.
17. Hvert er þitt draumafrí?
Ég hef aldrei farið í alvöru sólarlandaferð þar sem ég geri bókstaflega ekkert annað en að synda í sjónum, drekka kokteila og dansa fram á kvöld. Ég væri alveg til í að prófa það svona einu sinni.
18. Hvaða mál nýtur of lítillar athygli stjórnmálamanna að þínu mati?
Réttindi fólks með geðrænan vanda. Það er bein lagaleg mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma á Íslandi og þetta hefur verið vitað í áratugi en það hefur enginn breytt þessum ólögum ennþá. Það er verið að brjóta grundvallarmannréttindi á fólki á sínum viðkvæmustu stundum og það svíður áratugalangt sinnuleysið gagnvart réttindum þeirra og velferð.

Hugsi yfir spurningum um Covid
19. Hefurðu fengið Covid? Ertu bólusett/ur? Með hverju? Ef ekki, af hverju ekki?
Mér finnst skiljanlegt að fólk hafi áhuga á að vita þetta og ég deildi mynd af mér í bólusetningu á sínum tíma enda er ég mjög fylgjandi þeim.
Þessi spurning, að biðja frambjóðendur sem létu ekki bólusetja sig t.d. út af undirliggjandi sjúkdómum eða ofnæmi um að upplýsa um það, þetta eru allt saman viðkvæmar persónuupplýsingar og ég er hugsi yfir því hvað Covid hefur komið okkur langt yfir friðhelgislínuna. Er rétt af fjölmiðlum að safna þessum persónuupplýsingum um fólk og birta? Meira að segja þó það sé í framboði?
20. Hefur þú þurft að breyta lífi þínu á einhvern hátt vegna Covid? Ef svo, hvernig og heldurðu að sú breyting haldi?
Ég hef unnið miklu meira að heiman og það hefur hentað nýbakaðri móður mjög vel að geta tekið þátt í nefndarfundum í fjarfundi. Mér finnst að þingmenn eigi framvegis að hafa val um að taka þátt í fjarfundi en mér líkar betur að vera í sama herbergi og gestirnir.
Svo þurfti ég auðvitað að fresta brúðkaupsveislunni minni í tvígang en ég gifti mig nú samt í sumar. Veislan verður vonandi á næsta ári ef fram fer sem horfir.
21. Erum við orðin of sein til að bregðast við loftslagsvánni?
Við hefðum mátt bregðast miklu fyrr við en það er ennþá lítill gluggi eftir til þess að bregðast við af festu. Næstu fjögur ár mega ekki fara í súginn. Við þurfum aðgerðir - ekkert kjaftæði.
22. Hvernig fer umferðin í þig? Hvernig er best að leysa vandann?
Umferðin á Íslandi er pís of keik miðað við þær borgir sem ég hef búið í erlendis. En auðvitað eru umferðarteppur þreytandi og óþarfa leiðindi. Við viljum auðvelda fólki að velja aðra fararmáta og byggja þéttar svo færri þurfi að vera á bíl.
23. Hver er þinn uppáhalds sjónvarpsþáttur?
The Wire og Justified
24. Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana og það síðasta sem þú gerir á kvöldin?
Antoni litli fær að drekka hjá mér og maðurinn minn færir mér kaffibolla. Á kvöldinn svæfi ég venjulega Antoni með kvöldsopa, svo les ég oft eitthvað vinnutengt eða horfi á fréttir.
25. Ef þú þyrftir að flýja Ísland án fyrirvara, hvernig myndir þú vilja að það væri tekið á móti þér í öðru landi?
Vonandi betur en við tökum á móti flóttamönnum hér.
