Katrín Jakobsdóttir er sjöundi formaðurinn til að setjast í Formannsstólinn á vef Fréttablaðsins.
Katrín er forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs. Hún leiðir lista Vinstri-grænna í Reykjavík norður. Katrín hefur setið á þingi síðan 2007 og gegndi embætti mennta- og menningarmálaráðherra 2009 til 2013. Hún er gift Gunnari Sigvaldasyni og saman eiga þau þrjá syni. Hún er íslenskufræðingur, ólst upp í Álfheimum í Reykjavík, og elskar útivist og skáldskap. Hún hefur sýnt töfrabrögð, elskar þemaboð og er í vatnsberamerkinu

Kynjajafnrétti sé alltaf leiðarljós
1. Hvað ertu gamall/gömul?
Ég er 45 ára.
2. Hvaða fornafn notarðu? Hann/Hún/Hán?
Ég er hún.
3. Hvaða flokk ertu í framboði fyrir og hvaða kjördæmi?
Ég er í framboði fyrir Vinstrihreyfinguna-grænt framboð í Reykjavíkurkjördæmi norður.
4. Áttu heima í kjördæminu sem þú býður þig fram í?
Nei, ég bý í Reykjavík suður en er alin upp í Reykjavík norður.
5. Hvers vegna býður þú þig fram?
Af því að ég vil berjast fyrir jöfnuði og velsæld, sjálfbærni og jafnrétti.
6. Um hvað snúast Alþingiskosningarnar 2021 fyrir þér?
Að félagslegar áherslur verði ráðandi við uppbyggingu eftir heimsfaraldur, baráttan gegn loftslagsvánni verði enn meira forgangsmál og kynjajafnrétti sé alltaf okkar leiðarljós.

VG hörð og málefnaleg
7. Ef þú fengið að velja: Hvaða ráðherraembætti myndirðu vilja og af hverju?
Mér finnst núverandi embætti ágætt.
8. Kosningar eru afstaðnar. Þinn flokkur er í stjórnarandstöðu. Hver væri þín afstaða til þess að vinna með stjórninni? Hvernig myndir þú haga þér í stjórnarandstöðu?
Vinstri-græn eru hörð og málefnaleg í stjórnarandstöðu.
9. Hvernig hefur þér þótt starfsandinn á Alþingi síðustu fjögur ár?
Ágætur.
10. Afglæpavæðing neysluskammta: Já eða Nei?
Já.
11. Hver er þín fyrirmynd í stjórnmálum?
Ég myndi segja að fólkið sem ég hef kynnst í grasrót Vinstri-grænna sé mínar stærstu fyrirmyndir; ekki síst kjarnakonur sem ganga í öll verk eins og Sjöfn Ingólfsdóttir, Sigríður Kristinsdóttir og Kristín Sigfúsdóttir.

Má gera betur í málefnum barna
12. Ert þú femínisti?
Já auðvitað er ég femínisti.
13. Hvað finnst þér um börn?
Börn eru frábær.
14. Uppáhalds hreyfing eða æfing?
Útihlaup og borðtennis.
15. Hvernig myndir þú lýsa mataræði þínu?
Hollt og gott.
16. Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi og af hverju?
Fátt jafnast á við að ganga um ósnortin svæði á miðhálendi Íslands en svo eru Strandirnar í uppáhaldi… og Barðaströndin… og Djúpivogur… og svona gæti ég haldið áfram!
17. Hvert er þitt draumafrí?
Ísland og fjölskyldan og grillmatur og heitt kakó og miðnætursól.
18. Hvaða mál nýtur of lítillar athygli stjórnmálamanna að þínu mati?
Það eru örugglega mörg mál – til dæmis réttindi barna sem hafa reyndar fengið aukið rými á undanförnum árum en má gera betur.

Ferðast minna eftir Covid
19. Hefurðu fengið Covid? Ertu bólusett/ur? Með hverju? Ef ekki, af hverju ekki?
Ég hef ekki fengið covid en er fullbólusett.
20. Hefur þú þurft að breyta lífi þínu á einhvern hátt vegna Covid? Ef svo, hvernig og heldurðu að sú breyting haldi?
Get ekki sagt það að ég hafi breytt lífi mínu að öðru leyti en því að ég hitti mjög fáa mánuðum saman. En ég ferðast minna en áður og tek fleiri fundi í gegnum fjarfundabúnað.
21. Erum við orðin of sein til að bregðast við loftslagsvánni?
Nei en við þurfum að gera enn betur, flýta aðgerðum og setja okkur enn metnaðarfyllri markmið.
22. Hvernig fer umferðin í þig? Hvernig er best að leysa vandann?
Gerum almenningssamgöngur, göngu og hjólreiðar að raunverulegum valkosti og ráðumst líka í stofnframkvæmdir sem tryggja greiðar og öruggar samgöngur.
23. Hver er þinn uppáhalds sjónvarpsþáttur?
Ég er ekki að horfa á neitt um þessar mundir en pólitískir gamanþættir eru mitt uppáhald; Já ráðherra og Veep eru góð dæmi.
24. Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana og það síðasta sem þú gerir á kvöldin?
Ég sofna yfirleitt út frá bók þannig að það síðasta er að lesa. Og á morgnana byrja ég á því að fara fram úr og henda mér beint í heita sturtu.
25. Hvernig myndir þú vilja að það væri tekið á móti þér í öðru landi?
Ég myndi eins og við öll vilja að vel væri tekið á móti mér.