Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er áttundi formaðurinn til þess að setjast í formannsstól Fréttablaðsins.
Í formannsstólnum svara leiðtogar flokka sem bjóða sig fram til Alþingis misalvarlegum spurningum blaðamanna Fréttablaðsins. Allir leiðtogar flokkanna fengu sömu spurningar sendar í tölvupósti og verða svör þeirra birt næstu daga á vef blaðsins.
Logi er Akureyringur í húð og hár, arkitekt að mennt og stofnaði sína eigin arkitektastofu, Kollgátu árið 2003. Logi var eitt sinn vel þekktur sem einn af dönsurum og lagahöfundum sveitaballssveitarinnar Skriðjökla.
Hann hefur áður líst því í samtali við Fréttablaðið að hrunið hafi haft mikil áhrif á sig. Þá hafi hann ákveðið að láta slag standa en hann var bæjarfulltrúi á Akureyri 2012 til 2016, þegar hann tók við sem varaformaður og svo formaður Samfylkingarinnar sama ár.
Smátt og smátt ástfanginn af Gro Harlem Brundtland, a.m.k. pólitískt
1.Hvað ertu gamall/gömul?
57 ára
2. Hvaða fornafn notarðu? Hann/Hún/Hán?
Hann
3. Hvaða flokk ertu í framboði fyrir og hvaða kjördæmi?
Fyrir Samfylkinguna, Norðausturkjördæmi
4. Áttu heima í kjördæminu sem þú býður þig fram í?
Já, bý með konu og dóttur minni á Akureyri
5. Hvers vegna býður þú þig fram?
Til að skapa samfélag sem byggir á meiri jöfnuði. Það tel ég vera forsenda fyrir heilbrigðu, friðsömu og kraftmiklu samfélagi.
6. Um hvað snúast Alþingiskosningarnar 2021 fyrir þér?
Að setja fjölskyldur í forgang, hækka barnabætur og greiðslur í fæðingarorlofi, bæta kjör eldra fólks og öryrkja. Tryggja jöfn tækifæri og ráðast gegn vaxandi eignaójöfnuði. Ráðast í umbætur í heilbrigðiskerfinu og alvöru aðgerðir í loftslagsmálum.
7. Ef þú fengið að velja: Hvaða ráðherraembætti myndirðu vilja og af hverju?
Við sækjumst auðvitað eftir þeim ráðherraembættum þar sem við getum haft mest áhrif og komið okkar forgangsverkefnum Samfylkingarinnar í framkvæmd.
8. Kosningar eru afstaðnar. Þinn flokkur er í stjórnarandstöðu. Hver væri þín afstaða til þess að vinna með stjórninni? Hvernig myndir þú haga þér í stjórnarandstöðu?
Við í Samfylkingunni myndum vinna málefnalega að því að greiða fyrir góðum málum stjórnarinnar, reyna að bæta það sem betur mætti fara en andmæla þeim málum sem ganga gegn almannahag. Það höfum við ævinlega gert.
9. Hvernig hefur þér þótt starfsandinn á Alþingi síðustu fjögur ár? (ef á við)
Hann hefur verið ansi misjafn. Stundum góður, stundum slæmur. Klausturmálið hafði þrúgandi áhrif á andrúmsloftið! Covid faraldurinn breytti auðvitað miklu og settu okkur þingmönnum mun þrengri skorður.
10. Afglæpavæðing neysluskammta: Já eða Nei?
Já.
11. Hver er þín fyrirmynd í stjórnmálum?
Þegar ég stundaði háskólanám í Osló, varð ég smátt og smátt ástfanginn af Gro Harlem Brundtland, a.m.k. pólitískt. Ég nefni hana þótt ég hafi líka hrifist af mörgum öðrum Norrænum leiðtogum jafnaðarmanna, nú síðast Sanna Marin forsætisráðherra Finna.
12. Ert þú femínisti?
Já.

Skemmtilegt að fara á gönguskíði
13. Hvað finnst þér um börn?
Börn eru yndisleg og lykill að farsælli framtíð. Við þurfum að sjá til þess að öll börn nái að rækta hæfileika sína og grípa til alvöru aðgerða í loftlagsmálum, þannig að þeirra bíði góð framtíð.
14. Uppáhalds hreyfing eða æfing?
Ég hef gaman að löngum göngutúrum með góðri hljóðbók. Þá finnst mér í seinni tíð skemmtilegt að fara á gönguskíði.
15. Hvernig myndir þú lýsa mataræði þínu?
Ég hef gaman að mat og borða flest. Einfaldir pastaréttir eru í uppáhaldi um þessar mundir.
16. Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi og af hverju?
Seyðisfjörður er magnaður staður, skapar ekki ólík hughrif og félagsheimilið í Með allt á hreinu: Bærinn virkar lítil ofan af heiðinni en risastór þegar maður er kominn inn í bæinn.
17. Hvert er þitt draumafrí?
Ég elska grísku eyjarnar. En ef ég ætti að láta mig dreyma um fjarlægari áfangastaði langar mig mjög mikið til Suður-Ameríku einhverntíman á næstu árum. Þangað hef ég aldrei komið.
18. Hvaða mál nýtur of lítillar athygli stjórnmálamanna að þínu mati?
Fátækt, sem er óþolandi í jafn auðugu landi. Þá víkur staða lítilla fyrirtækja og einyrkja of oft fyrir hagsmunum stærstu fyrirtækjanna.
19. Hefurðu fengið Covid? Ertu bólusett/ur? Með hverju? Ef ekki, af hverju ekki?
Nei ég hef ekki fengið COVID og er bólusettur með AstraZeneca.
20. Hefur þú þurft að breyta lífi þínu á einhvern hátt vegna Covid? Ef svo, hvernig og heldurðu að sú breyting haldi?
Á tímabili komst ég sjaldnar heim til fjölskyldunnar, hitti færra fólk en nýtti tímann til fleiri göngutúra.

Ekki of sein að grípa til aðgerða í loftlagsmálum
21. Erum við orðin of sein til að bregðast við loftslagsvánni?
Nei við erum alls ekki of sein að grípa til aðgerða til að hægja á loftslagsbreytingum og bjarga lífríkinu þó við munum örugglega upplifa fjölmargar afleiðingar af ágangi okkar síðustu áratugi. En klukkan tifar og við verðum að grípa til alvöru aðgerða ef ekki á að fara illa.
22. Hvernig fer umferðin í þig? Hvernig er best að leysa vandann?
Ég labba mikið, hvort sem ég er heima á Akureyri eða í Reykjavík. Besta leiðin til að leysa umferðarvandann er að leggja miklu meiri áherslu á skynsamlega byggðaþróun og ráðast í stórátak í almenningssamgöngum; hraða Borgarlínu.
Tryggja að almenningssamgöngur og hjól séu raunhæfir ferðamátar. Byggja græn hverfi og þétta byggð, með fjölbreyttri þjónustu í göngufæri.
23. Hver er þinn uppáhalds sjónvarpsþáttur?
Curb your enthusiasm. Ég er líka veikur fyrir Norrænum sjónvarpsþáttum og nefni Klovn, Borgen og Broen.
24. Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana og það síðasta sem þú gerir á kvöldin?
Það fyrsta er bolli af svörtu kaffi og yfirferð frétta. Það síðasta að bursta tennurnar.
25. Ef þú þyrftir að flýja Ísland án fyrirvara, hvernig myndir þú vilja að það væri tekið á móti þér í öðru landi?
Af mannúð auðvitað, opnum hug og góðu skipulagi við komu. Þannig eigum við að líka að taka á móti flóttafólki sem hingað leitar, oft í sárri neyð.
Eða eins og Jesús sagði: Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra.
