Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er annar for­maðurinn til þess að setjast í for­manns­stól Frétta­blaðsins.

Í for­manns­stólnum svara for­menn flokka sem bjóða sig fram til Al­þingis mis­alvar­legum spurningum blaða­manna Frétta­blaðsins. Allir for­menn fengu sömu spurningar sendar í tölvupósti og verða svör þeirra birt næstu daga á vef blaðsins.

Sigurður Ingi er menntaður dýra­læknir og hefur verið í stjórn­málum síðan 1994. Fyrst sem sveitar­stjórnar­maður og odd­viti í Hruna­manna­hrepp en frá árinu 2009 á Al­þingi fyrir Fram­sókn. Sigurður Ingi býr í Syðra-Lang­holti í Hruna­manna­hreppi á­samt Elsu In­gjalds­dóttur, eigin­konu sinni.

Sigurður Ingi hefur verið þing­maður Suður­kjör­dæmis frá því að hann tók sæti á þingi. Hann hefur gegnt ýmsum ráð­herra­em­bættum. Hann var sjávar­­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra 2013–2016, um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra 2013–2014, for­sætis­ráð­herra 2016–2017 og sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra og ­ráð­herra nor­rænna sam­­starfs­­mála frá 2017 og þar til í dag.

Sigurður er menntaður dýralæknir.

Málefnin sem gilda

 1. Hvað ertu gamall/gömul?
  59 ára
 2. Hvaða for­nafn notarðu? Hann/Hún/Hán?
  Hann.
 3. Hvaða flokk ertu í fram­boði fyrir og hvaða kjör­dæmi?
  Fram­sókn í Suður­kjör­dæmi.
 4. Áttu heima í kjör­dæminu sem þú býður þig fram í?
  Já.
 5. Hvers vegna býður þú þig fram?
  Til að hafa já­kvæð á­hrif á um­hverfi mitt.
 6. Um hvað snúast Al­þingis­kosningarnar 2021 fyrir þér?
  Þær snúast um hvernig við aukum lífs­gæði fólks um allt land.
 7. Ef þú fengið að velja: Hvaða ráð­herra­em­bætti myndirðu vilja og af hverju?
  Það eitt og sér skiptir ekki öllu máli – það eru mál­efnin sem gilda. Ég hef fengið tæki­færi til að sitja í stóli for­sætis­ráð­herra, land­búnaðar og um­hverfis sem og nú sveitar­stjórnar og sam­gangna
Sigurður Ingi og Elsa konan hans.

8. Kosningar eru af­staðnar. Þinn flokkur er í stjórnar­and­stöðu. Hver væri þín af­staða til þess að vinna með stjórninni? Hvernig myndir þú haga þér í stjórnar­and­stöðu?
Ég hef það að leiðar­ljósi í stjórn­málum að vera sam­kvæmur sjálfum mér. Ég styð við þau mál sem ég tel vera landi og þjóð til heilla.

9. Hvernig hefur þér þótt starfs­andinn á Al­þingi síðustu fjögur ár? (ef á við)
Sú ríkis­stjórn sem ég hef starfað í síðustu fjögur árin var að hluta til mynduð til að búa til pólitískan stöðug­leika og vinna að því að efla inn­viði á öllum sviðum. Það hefur tekist mjög vel.

10. Af­glæpa­væðing neyslu­skammta: Já eða Nei?

Nei. Hins vegar þurfum við líka að breyta um kúrs því árangurinn hingað til hefur ekki verið nægjan­lega góður

Myndin er tekin í alþingishúsinu þegar Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi tilkynntu um nýja ríkisstjórn.
Fréttablaðið/Ernir

Best að vera á hestbaki og í Kerlingarfjöllum

11.Hver er þín fyrir­mynd í stjórn­málum?

Ef ein­hver þá væri það hann afi minn, Sigurður Ingi Sigurðs­son.

12.Ert þú femín­isti?
Já.

13. Hvað finnst þér um börn?
Börn eru til­gangur lífsins.

Kerlingar­fjöll eru minn upp­á­halds­staður. Þar finn ég bæði kyrrð og orku náttúrunnar.

14.Upp­á­halds hreyfing eða æfing?

Að vera á hest­baki.

15. Hvernig myndir þú lýsa matar­æði þínu?

Stendur til bóta.

16. Hver er þinn upp­á­halds­staður á Ís­landi og af hverju?

Kerlingar­fjöll eru minn upp­á­halds­staður. Þar finn ég bæði kyrrð og orku náttúrunnar.

Þegar Sigurður Ingi var forsætisráðherra hitti hann, og Elsa kona hans, Obama-hjónin sem þá sátu enn í Hvíta húsinu.
Fréttablaðið/Getty

Hugsum ekki nógu langt

17. Hvert er þitt drauma­frí?

Hesta­ferð um há­lendið.

18. Hvaða mál nýtur of lítillar at­hygli stjórn­mála­manna að þínu mati?
Al­mennt hugsum við ekki nógu langt, það er að segja um lengri fram­tíð

19. Hefurðu fengið Co­vid? Ertu bólu­sett/ur? Með hverju? Ef ekki, af hverju ekki?
Er bólu­settur með Pfizer.

20. Hefur þú þurft að breyta lífi þínu á ein­hvern hátt vegna Co­vid? Ef svo, hvernig og heldurðu að sú breyting haldi?
Co­vid hefur haft mikil á­hrif á mig eins og aðra lands­menn. Ég hef í far­aldrinum byrjað í hjól­reiðum og ætla að halda því á­fram.

Sigurður Ingi á þingi árið 2013.

Klovn og Veðurfréttir í uppáhaldi

21. Erum við orðin of sein til að bregðast við lofts­lags­vánni?

Nei. Ég er bjart­sýnn að eðlis­fari og trúi því af heilum hug að mann­kynið finni leiðir til að virkja hug­vitið til að búa til grænni heim.

22. Hvernig fer um­ferðin í þig? Hvernig er best að leysa vandann?
Það var dregið veru­lega úr kraftinum í sam­göngu­bótum eftir hrun en á þessu kjör­tíma­bili hefur hann verið aukinn stór­lega. Aldrei hefur meiri fjár­munum verið veitt til sam­gangna og nú og því verður að halda á­fram.

23. Hver er þinn upp­á­halds sjón­varps­þáttur?

Veður­fréttir og Klovn

24. Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana og það síðasta sem þú gerir á kvöldin?
Kyssi Elsu, konuna mína.

25. Ef þú þyrftir að flýja Ís­land án fyrir­vara, hvernig myndir þú vilja að það væri tekið á móti þér í öðru landi?
Ég myndi vilja að það yrði tekið á móti mér með um­hyggju og virðingu.