Bjarni Benediktsson, er síðasti formaðurinn sem sest í Formannsstólinn á vef Fréttablaðsins.
Bjarni er formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármála- og efnahagsráðherra og fjölskyldufaðir úr Garðabænum. Pabbi fjögurra barna og eins hunds, og afi eins árs afastráks og nafna. Gekk í Garðaskóla, MR og lagadeild Háskóla Íslands. Stundaði frekara nám í tvö ár í Þýskalandi og Bandaríkjunum.
Á uppvaxtarárunum áttu íþróttir hug hans allan, var bæði í fótbolta og handbolta í Stjörnunni. Í seinni tíð fer meiri frítími í samverustundir með fjölskyldunni, veiði, ferðalög um landið, að taka myndir, renna sér á skíðum, stöku golfhringi og undanfarið í að sýsla í gróðurhúsinu. Dagarnir byrja snemma, ýmist á æfingu eða í baði – þar sem bestu hugmyndirnar fæðast yfirleitt. Sérlegur Elvis aðdáandi, sem finnst nánast allt gott, en kann best að meta kótilettur í raspi eða vel gerðan hamborgara.
Bjarni kom fyrst inn á þing 2003, eftir að hafa starfað í lögmennsku. Hefur verið þar síðan, starfað í mörgu nefndum þingsins, verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 12 ár og bæði gegnt hlutverki forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Trúir einlægt á réttlátt og hvetjandi samfélag sem byggist á jöfnum tækifærum fólks til að skapa sína eigin framtíð. Brennur fyrir því að gera samfélagið sífellt betra.

Vill halda áfram af fullum krafti
- Hvað ertu gamall/gömul?
51 árs - Hvaða fornafn notarðu? Hann/Hún/Hán?
Hann - Hvaða flokk ertu í framboði fyrir og hvaða kjördæmi?
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi - Áttu heima í kjördæminu sem þú býður þig fram í?
Já - Hvers vegna býður þú þig fram?
Ég brenn fyrir áframhaldandi framförum í okkar frjálsa og öfluga samfélagi. Á Alþingi er hægt að hafa mikil áhrif og breyta hlutunum til hins betra. Við höfum náð miklum árangri undanfarin ár og ég vil halda áfram af fullum krafti. - Um hvað snúast Alþingiskosningarnar 2021 fyrir þér?
Þær snúast um að Ísland haldi áfram að vera land tækifæranna. Áframhaldandi stöðugleika og umhverfi þar sem fólk getur blómstrað á sínum eigin forsendum. Það skiptir öllu máli að við tökum ekki U-beygju hvað þetta varðar og hverfum aftur til skattahækkana og skerðinga, eins og við munum eftir árin 2009 til 2013. Við þurfum að halda áfram að draga úr atvinnuleysi og skuldsetningu, standa með heimilum og fyrirtækjum og skapa áframhaldandi jarðveg fyrir nýsköpun og fjölbreytt tækifæri. Þannig náum við raunverulegum árangri.

Andinn góður á Alþingi
7. Ef þú fengið að velja: Hvaða ráðherraembætti myndirðu vilja og af hverju?
Ég nálgast mitt hlutverk þannig að næst er að fá góða niðurstöðu úr kosningum. Við spilum svo úr þeirri niðurstöðu í samræmi við úrslit kosninga.
8. Kosningar eru afstaðnar. Þinn flokkur er í stjórnarandstöðu. Hver væri þín afstaða til þess að vinna með stjórninni? Hvernig myndir þú haga þér í stjórnarandstöðu?
Við munum alltaf berjast fyrir frjálsu samfélagi stöðugleika og framfara, fyrir jöfnum tækifærum frekar en þvingaðri jafnri útkomu. Við munum standa vörð um þessi gildi hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu og láta til okkar taka hvenær sem þess þarf. Hins vegar er mín tilfinning sú að fólk finni á eigin skinni að við erum á réttri leið, og hafi ekki hug á að víkja af þeirri braut. Þetta er ég sannfærður um að muni endurspeglast í kjörkössunum á kosninganótt.
9. Hvernig hefur þér þótt starfsandinn á Alþingi síðustu fjögur ár?
Andinn hefur almennt verið góður. Við höfum fengið stórar áskoranir í fangið og þurft að ná saman um mikilvæg mál, á borð við efnahagsaðgerðir vegna Covid og fleira. Heilt yfir hefur það gengið vel og samstarfið milli stjórnarflokkanna verið sérstaklega gott. Alþingi er skemmtilegur vinnustaður og þar er almennt gott fólk í öllum flokkum.
10. Afglæpavæðing neysluskammta: Já eða Nei?
Ég er hlynntur því að hjálpa til við betrun fíkla frekar en að refsa þeim.
11. Hver er þín fyrirmynd í stjórnmálum?
Ég hef fylgst með og starfað með mörgum leiðtogum sem ég tel mig hafa lært af og lít upp til. Mér finnst mikilvægt að vera samt sem áður ég sjálfur. Ég losna aldrei við manninn í speglinum og best að reyna að vera sáttur við hann. Annað væri vesen.

Elskar börn og hóf barneignir snemma
12. Ert þú femínisti?
Já
13. Hvað finnst þér um börn?
Ég elska börn, á sjálfur fjögur og einn afastrák að auki. Við Þóra hófum barneignir snemma, rétt skriðin yfir tvítugt þegar Margrét dóttir okkar fæddist sumarið 1991.
14. Uppáhalds hreyfing eða æfing?
Á yngri árum fór mestur tími í fótbolta og handbolta. Í seinni tíð er ég meira í útivist af öllu tagi og reyni að taka reglulegar úthalds- og lyftingaæfingar. Því miður er tímaskortur mitt stærsta vandamál á þessu sviði, en mér þykir nánast öll hreyfing skemmtileg og líður alltaf betur þegar rútínan er góð.
15. Hvernig myndir þú lýsa mataræði þínu?
Ég reyni almennt að borða hollt, enda líður manni miklu betur þannig. Hins vegar kann ég mikið að meta vel gerðan hamborgara, kótilettur í raspi og fleira sem telst líklega seint til heilsufæðis. En þetta snýst allt um jafnvægið. Nú er ég mikið að reyna einfaldlega að borða minna.
16. Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi og af hverju?
Það mætti nefna ansi marga, en mér líður hvað best í afslöppun og veiði við Þingvallavatn.

Skíðaferð draumafrí
17. Hvert er þitt draumafrí?
Góð skíðaferð með fjölskyldunni og góðum vinum.
18.Hvaða mál nýtur of lítillar athygli stjórnmálamanna að þínu mati?
Almennt má segja að það sé allt of lítið rætt um hver eigi að borga fyrir allar þessar hugmyndir sem er gaman að ræða um.
19. Hefurðu fengið Covid? Ertu bólusett/ur? Með hverju? Ef ekki, af hverju ekki?
Ég hef ekki fengið Covid, en er tvíbólusettur með Astra.
20. Hefur þú þurft að breyta lífi þínu á einhvern hátt vegna Covid? Ef svo, hvernig og heldurðu að sú breyting haldi?
Ég get ekki sagt að ég hafi gert stórfelldar breytingar. Það er nærtækt að nefna fjarfundi og annað sem veldur því að maður nýtir tímann sinn betur.
Dagarnir byrja snemma, ýmist á æfingu eða í baði – þar sem bestu hugmyndirnar fæðast yfirleitt.
Byrjar daginn á æfingu eða í baði
21. Erum við orðin of sein til að bregðast við loftslagsvánni?
Það er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að bregðast við loftslagsvánni og ég tel að við eigum stór tækifæri inni til að snúa þróuninni við. Bara hér á Íslandi eru tækifærin ótal mörg. Við höfum sett okkur það markmið að verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrst allra þjóða, og nýta grænu orkuna hér á landi í stað þess að sigla með olíu til landsins í tankskipum. Með því að nýta grænu orkuna okkar í auknum mæli í framleiðslu og vinnu sem fer í dag fram með kolum og olíu erlendis leggjum við sömuleiðis risastórt lóð á vogarskálarnir við að draga úr losun, á sama tíma og við sköpum ný störf og tækifæri.
22. Hvernig fer umferðin í þig? Hvernig er best að leysa vandann?
Öruggar samgöngur eru eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Við þurfum að halda áfram að fjárfesta í öflugum og umhverfisvænum samgöngum. Kostirnir þurfa að vera góðir og raunhæfir hvort sem fólk velur að ferðast á eigin bíl, með almenningssamgöngum, hjólandi eða gangandi. Ríkið og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu samgöngusáttmála fyrir um tveimur árum síðan þar sem stefnan er sett á metnaðarfulla og mikla uppbyggingu.
23. Hver er þinn uppáhalds sjónvarpsþáttur?
Á tali með Hemma Gunn. Það á eftir að toppa þann þátt.
24. Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana og það síðasta sem þú gerir á kvöldin?
Dagarnir byrja snemma, ýmist á æfingu eða í baði – þar sem bestu hugmyndirnar fæðast yfirleitt. Á kvöldin finnst mér best að taka því rólega með fjölskyldunni og hlaða batteríin. Í miðri kosningabaráttu eru slík kvöld hins vegar ekki jafn mörg og ella, heldur er maður á ferð og flugi um landið að hitta fólk. Það er líka afskaplega skemmtilegt og fyllir mann orku og eldmóði á lokametrunum.
25. Ef þú þyrftir að flýja Ísland án fyrirvara, hvernig myndir þú vilja að það væri tekið á móti þér í öðru landi?
Ég myndi vona að vel yrði tekið vel á móti mér, það hljóta flestir að vilja. Sömuleiðis myndi ég vilja geta lagt mitt af mörkum til samfélagsins og látið gott af mér leiða.