Guðni Ágústs­son, fyrr­verandi land­búnaðar­ráð­herra og for­maður Fram­sóknar­flokksins fyrr á þessari öld er stór­yrtur í pólitísku upp­gjöri sínu í við­tals­þættinum Manna­máli sem frum­sýndur er á Hring­braut í kvöld, en þar segir hann að sam­starf hans og Hall­dórs Ás­gríms­sonar, sem leiddi flokkinn á árunum 1996 til 2006, hafi verið einkar erfitt.

Hall­dór hafi staðið gegn því að Guðni yrði ráð­herra eftir þing­kosningarnar 1995 þegar Fram­sókn leysti Al­þýðu­flokkinn af hólmi í ríkis­stjórn með Sjálf­stæðis­flokknum undir for­ystu Davíðs Odds­sonar, en sigur Guðna í Suður­kjör­dæmi fjórum árum seinna hafi aftur á móti verið svo stór að Hall­dór hafi ekki getað gengið fram hjá sunn­lenska odd­vitanum við ráð­herra­val, þvert á vilja sinn.

Hall­dór hafi vissu­lega verið greindur stjórn­mála­maður, mjög vel að sér á mörgum sviðum og hrað­læs á allar pólitískar stöður, en þeir hafi ekki átt sam­lyndi og oft ekki talað saman í langan tíma þótt þeir ynnu við sama ríkis­stjórnar­borðið.

Lík­lega megi skýra þögnina á milli þeirra með þeim á­tökum sem voru í flokknum á þessum tíma, en Hall­dór hafi verið sann­færður Evrópu­sinni, þvert á pólitík Guðna – og í raun hafi flokkurinn verið klofinn á þessum tíma.

Hall­dór hafi líka unnið gegn því að Guðni tæki við for­mennsku flokksins þegar Hall­dór lét af henni eftir ára­tugar­setu á for­manns­stóli, en Guðni hafi þó haft þar betur að lokum, rétt eins og í ráð­herra­málinu.

Í við­talinu, sem er kostu­legt að hætta sagna­mannsins Guðna er vand­lega farið yfir upp­á­komuna þegar Davíð henti fjöl­miðla­frum­varpinu í hendurnar á Hall­dóri, gáttuðum á svip, en svo er auð­vitað fjallað um æsku­ár Guðna austur á Brúna­stöðum þar sem frú Ing­veldur vann það stór­virki að ala upp 16 börn sem hún fæddi á 21 ári, á meðan ekta­maðurinn Ágúst Þor­valds­son sinnti öðru fremur þing­mennsku í Reykja­vík – og þar er að finna dýrð­legar lýsingar að hætti hússins.

Þátturinn er frum­sýndur kl. 19:00 í kvöld og fyrsta endur­sýning er kl. 21:00.