Sigríður Hrund Pétursdóttir, fjárfestir og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hefur deilt færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún úrskýrir af hverju hún lækaði færslu Loga Bergmanns, fjölmiðlamanns, þar sem hann segist að mestu saklaus af öllum sökum sem á hann hafa verið bornar undanfarna daga.

Sigríður segist hafa tekið lækið af um leið og henni hafi verið bent á hversu merkingarbær þumallinn getur verið.

„Þumall fyrir mér er ekki samþykki öllum stundum, heldur "ég heyri hvað þú segir",“ segir Sigríður Hrund meðal annars í færslu sinni.

„Fyrir mér er tjáningafrelsi okkar mikilvægt og grunnmannréttindi - líka þeirra radda sem eru okkur erfiðar eða við erum hreinlega ekki sammála. Ég á alveg FB "vini" sem falla í þann flokk. Svo er ég bullandi mannleg og oft hvatvís,“ segir Sigríður Hrund í færslunni.

Dv greinir frá því að úrsagnir úr FKA hafi farið af stað eftir að formaðurinn lækaði færsluna.

Þá segir Sigríður Hrund að sem þolandi kynferðisofbeldis sjálf sé hugur hennar og 100 prósent stuðningur hjá þolendum og fjölskyldum þeirra.