Nýr þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði í þinghúsinu í dag. Fréttablaðið náði tali af nokkrum þingmönnum flokksins eftir fundinn og mátti vel greina þeirra á meðal að gott hljóð væri almennt í þingflokknum og að formaður þeirra hefði fullt umboð til að skoða áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf með Vinstri hreyfingunni grænu framboði og Framsóknarflokknum.
Formaðurinn hafi fullt umboð þingflokksins
„Það er prýðilegt. Núna taka við næstu hlutir að mynda nýja ríkisstjórn og það sjá allir hvernig staðan er í því,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, eftir fundinn.
Hann sagði að Bjarni hafi fullt umboð þingflokksins til að ræða við formenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf.
Spurður um orð ákveðinna þingmanna í kosningabaráttunni og efasemdir þeirra um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf sagði Guðlaugaur það ekkert nýtt að flokkanir, VG og Sjálfstæðisflokkur væru ólíkir en að nú væri nýtt kjörtímabil og það þyrfti að koma í ljós hver
„Þetta eru ólíkir flokkar, ólíkar áherslur. Það hefur gengið vel að vinna saman við erfiðar aðstæður og skilað góðum árangri. Það er fullt traust til formanns Sjálfstæðisflokksins til að fara yfir þau mál við oddvita ríkisstjórnarinnar,“ sagði Guðlaugur Þór.
Hann sagði að honum hefðu ekki verið settir neinir afarkostir og að þau vildu auðvitað að þeirra formaður leiði næstu ríkisstjórn en að það þyrfti að líta til fleiri þátta.
Spurður hvort að hann vilji vera áfram í utanríkisráðuneytinu sagðist hann kunna vel við sig þar og vildi vel vera þar áfram.

Tilbúin að takast á við önnur verkefni
„Það er gaman að hittast og taka á móti nýjum þingmönnum inn í þingflokkinn. Það er alltaf spenna sem fylgir því. Bæði ný andlit og fyrrverandi andlit sem eru komin aftur inn í þingflokkinn, og það er gott,“ Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Norðfjörð eftir þingflokksfund á Alþingi í dag.
Hún sagði að það hefðu verið almennar umræður á fundinum og verið að taka stöðuna eftir að hafa varið miklum tíma í kjördæmunum á flakki í kosningabaráttunni.
Hún sagði að þau væru skammt á veg komin með næstu skref varðandi stjórnarmyndun en sagði ákveðin að Bjarni hefði óskorað vald þingflokksins til að leiða þær viðræður.
Við erum ekki þekkt fyrir einhverja afarkosti á mánudegi eftir kosningar
„Það er núna i hans höndum og þau taka þetta samtal. Við höfðum öll sagt að það væri eðlilegt að byrja á því að tala saman ef við fengjum til þess umboð og við fengum til þess umboð en við erum ekki komin lengra en það,“ sagði Þórdís.
Hún sagði að flokkurinn leggi áherslu á verkefnin og málefnin og það sé það sem skipti máli.
„Við erum ekki þekkt fyrir einhverja afarkosti á mánudegi eftir kosningar en við fundum hvaða mál brunnu á fólki,“ sagði Þórdís Kolbrún og nefndi heilbrigðismál, loftslagsmál, nýtingu auðlinda og orkuskipti.
Spurð hún vilji vera áfram í ráðuneyti ferðamála-, nýsköpunar og iðnaðar sagði hún að verkefnin þar væru afskaplega skemmtileg en hún væri meira en tilbúin að taka að sér önnur verkefni.
Til í flest, ef ekki allt
Hildur Sverrisdóttir sagði eftir þingflokksfundinn að það væri ekki tímabært að ræða það hvað hún vilji helst eða hvaða verkefni skipta hana mestu máli.
„Það var gaman að finna mikla samheldni í hópnum og mikinn metnað til þess að flokkurinn haldi áfram að stíga skref í rétta átt fyrir samfélagið,“ sagði Hildur.
Spurð hvaða hlutverk hún sæi fyrir sér að taka að sér sagði hún að það væru mörg hlutverk sem hún væri til að sinna og hún væri til í þau flest, ef ekki öll, en það væri ótímabært að ræða það eins og staðan er núna.
„En fyrst og fremst er þetta í höndum formannsins, hvernig þetta teiknast upp, og ég gat ekki fundið neitt annað en fullkomið traust til hans til að stíga þau skref,“ sagði Hildur.

Bjartsýnn á framhaldið
Ásmundur Friðriksson sagði hljóðið gott eftir fyrsta þingflokksfundinn.
„Við erum búin að fá nýja félaga,“ sagði Ásmundur og að í huganum hefðu þau kvatt þau gömlu.
„Við erum að horfa til framtíðar með mikilli bjartsýni.“

Skýrt að flokkurinn er sá stærsti
Diljá Mist Einarsdóttir, ein nýrra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir þingflokksfund flokksins að hljóðið hefði verið gott í þingflokknum en að það væri skýr vilji þingflokksins að það sé ljóst í samstarfi að flokkurinn sé stærsti flokkur landsins og stærsti flokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfi.
„Við förum með það hugarfar inn í viðræður.“
Hún sagði að framhaldið hefði verið rætt á almennum nótum og undanfarnar vikur gerðar upp og mikill samhljómur inn í þingflokknum með framhaldið.
„Auðvitað er það þannig að okkar markmið og okkar málefni næðu sem lengst fram að ganga. Það skiptir miklu máli og ég undirstrika þetta að við erum stærsti stjórnmálaflokkur landsins.“
Hún sagði að stærsta kosningamálið núna hefði verið áframhaldandi stöðugleiki en að nú þyrfti að ræða framtíðarsýn.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir fund þingflokksins að það væru ekki skiptar skoðanir meðal þingflokksins og að það væri enn opið fyrir mörgu.
„Já, það er enginn að loka dyrum,“ sagði Haraldur að loknum fundi.
Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 13:46.