Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir í samtali við Fréttablaðið að lokun Kelduskóla hafi átt sér langan aðdraganda. Tilkynning frá ráðinu í dag segir að það hafi samþykkt í dag tillögu um að skólanum verði lokað næsta haust. Þrír grunnskólar verði starfræktir í norðanverðum Grafarvogi frá og með hausti 2020, Borgaskóli og Engjaskóli verði fyrir nemendur í 1.-7. bekk og Víkurskóli verði sameinaður unglingaskóli fyrir nemendur í 8.-10 bekk.

Foreldrar mótmæltu ákvörðuninni í morgun með því að tefja umferð við Kelduskóla og þannig deila á aukna umferð sem komi í kjölfar lokunarinnar þegar foreldrar þurfa að keyra börnin í skólann úr hverfinu. Tillagan fer fyrir borgarráð og borgarstjórn næsta þriðjudag.

„Við höfum verið í mikilli vinnu allt árið. Við settum saman starfshóp í mars til að bregðast við nemendafækkun í skólanum en þetta er langminnsti skólinn á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Skúli um tillögu skóla- og frístundaráðsins.

Nemendur vilja vera áfram í skólanum

„Við deilum ekki um það að nemendur vilji vera áfram í skólanum.“ Skúli segir að að mati sérfræðinga sem starfa að skólamálum sé talið að það sé fyrir bestu fyrir börnin að vera í stærri hópi.

„Þetta eru sérstakar aðstæður, þessi eini skóli er með svo fáa nemendur. Meðalskólinn á Íslandi er með 430 börn og í Grafarvogi eru átta skólar.“

Það er ekki hægt að gera ekki neitt í málinu og við viljum ekki stinga höfðinu í sandinn.“

Verði tillagan samþykkt næsta þriðjudag fer af stað innleiðingarferli og verður kallað eftir fulltrúum frá foreldrafélaginu og þeim sem standa skólanum næst. „Heilmikið samtal næstu vikur og mánuði mun þá eiga sér stað,“ segir Skúli.

Trúnaðarbrestur

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er ósátt við fund skóla- og frístundaráðs og segir í færslu á Facebook í kvöld að trúnaður hafi verið brotinn á fundinum vegna fréttatilkynningarinnar.

„Trúnaður var brotinn núna á fundi skóla- og frístundaráðs þegar var verið að ræða um skólastarf í norðanverðum Grafarvogi. Fréttatilkynning um málið og um það hvernig um það var kostið var send út áður en fundi lauk. Við þetta gerðum við alvarlegar athugasemdir og óskum eftir því að borgarlögmaður skoði lögmæti fundarins enda okkur borgarfulltrúum settar skýrar skorður vegna trúnaðar á fundum sem augljóslega var brotinn í dag.“

Aðspurður um atvikið segir Skúli:

„Það er rétt. Það hefði verið rétt að bíða með að senda út tilkynninguna. Búið var að afgreiða málið en fundurinn stóð enn yfir.“