Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, hefur skráð sig bakvarðarvakt og mætir á morgun á gamla vinnustaðinn sinn A6 í Fossvogi, sem áður var lungnadeildin en hýsir nú COVID-sjúklinga.

Þar starfaði hún fyrir rúmum fimm árum sem sjúkraliði. Hún hvetur sjúkraliða og aðra heilbrigðismenntaða til að skrá sig á bakvarðarvakt

„Ég hef saknað þess að vera á gólfinu. Þegar ég sá að ég átti lausan tíma eftir að við lönduðum þessum kjarasamningum þá ákvað ég að skrá mig,“ segir Sandra í samtali við Fréttablaðið.

Sandra segir að rétt tæplega 70 sjúkraliðar séu búnir að skrá sig í bakvarðarsveitina síðast þegar hún athugaði en telur líklegt að kippur hafi komið í fólk eftir fréttir um hópsmit á Landakoti. Landspítalinn hefur lýst yfir neyðarstigi í fyrsta sinn og hefur Alma D. Möller landlæknir biðlað til heilbrigðismenntaða að skrá sig á bakvarðarvakt.

„Maður trúir því ekki að þetta sé að gerast, að Landspítalinn sé kominn á neyðarstig. Ég tel að allir sem geta og þora og vilja og þekkja til ættu að bjóða fram krafta sína,“ segir Sandra og tekur fram verkefni bakvarðarsveitar séu fjölbreytt og því fleiri sem skrái sig því betra.

„Við eigum svo margt gott fólk í kringum okkur og ég hvet fólk sem er tilbúið að gefa sig í þetta starf að skrá sig í bakvarðarsveitina. Bakvarðarsveitin er með fjölþætt verkefni; á gólfinu, í smitrakningu og í úthringingum.“