Arnaldur Bárðarson hefur sagt af sér formennsku Prestafélags Íslands auk þess að segja sig alveg úr félaginu.

Þetta staðfestir Arnaldur í samtali við Fréttablaðið en hann tilkynnti um afsögn sína í gærmorgun.

„Ég tel Prestafélagið ekki vera í standi til að gæta hagsmuna minna sem stéttarfélag,“ segir Arnaldur aðspurður um ástæðu afsagnar sinnar og bætir við að það sé vegna ástands félagsins.

Félag prestvígðra kvenna hafði krafist afsagnar Arnaldar, en hann hafði fyrst gefið út að hann myndi ekki segja af sér. Arnaldur sætti mikilli gagnrýni eftir að hafa tjáð sig um mál séra Gunnars Sigur­jóns­sonar í viðtali á Útvarpi Sögu. Það gerði hann áður en skýrsla ó­háðs teymis kirkjunnar, sem hafði rann­sakað mál Gunnars í marga mánuði, var gerð opin­ber.

Aðspurður hvort ástæðu afsagnarinnar megi rekja til ummæla hans í þættinum segir Arnaldur málið snúa að því að hann, sem formaður, hafi verið settur í þá stöðu að gæta hagsmuna félagsmanns með þeim afleiðingum að aðrir innan félagsins hafi talið hann vera taka afstöðu gegn öðrum félgasmönnum. „Þetta losnum við við í stóru stéttarfélagi eins og Fræðagarði,“ segir Arnaldur en hann hefur líkt og fyrr segir sagt sig úr Prestafélaginu og skráð sig í stéttarfélagið Fræðagarð.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stóð til að Arnaldur myndi segja af sér formennsku á fundi sem boðað hafði verið til þann 10. október síðastliðinn.

Á fundinum kom í ljós að boðað hafði verið ranglega til hans svo fundurinn breyttist í málfund og Arnaldur sagði ekki af sér á fundinum heldur nú í gærmorgun.

Félag prestvígðra kvenna hugðist ítreka vantrauststillögu sína eftir fundinn á mánudag og krefjast annars fundar vegna málsins en ekki er þörf á því lengur.