„Þetta tel ég góðar fréttir fyrir íslenska bókaútgáfu,“ segir Halldór Guðmundsson, formaður stjórnar Máls og menningar og Forlagsins, í færslu á Facebook um söluna á 70 prósent hluta í Forlaginu, stærsta bókaútgáfu Íslands, til sænska fyrirtækisins Storytel.

„Á óvissu- og umbrotatímum kýs öflugasta fyrirtæki Norðurlanda á sviði raf- og hljóðbóka að fjárfesta í íslenskri bókaútgáfu,“ bendir Halldór á og kveðst viss um að þetta geti aukið útbreiðslu íslenskra bókmennta og líka þjónustu við íslenska lesendur sem fleiri kjósi hljóðbókaformið.

„Storytel á fyrir merkileg bókaforlög á Norðurlöndum, einsog Norstedts í Svíþjóð, og Forlagið mun starfa áfram sem sjálfstæð íslensk bókaútgáfa. Mál og menning verður áfram 30 prósent eigandi í Forlaginu og með tvo fulltrúa í stjórn. Við eigum líka áfram vörumerki Máls og menningar og slitni upp úr þessu samstarfi gengur það til okkar. Ennfremur er samkomulag um að ekkert fé verði greitt út úr Forlaginu næstu þrjú árin,“ lýsir Halldór nánar samkomulaginu um kaup Storytel á Forlaginu.

Þá skrifar Halldór á Facebook að á næstu mánuðum muni bókmenntafélag Máls og menningar leggja grunn að sérstökum sjóði til styrktar íslenskum bókmenntum. Félagið vilji einnig efla íslenska bókaverslun sem átt hafi í miklum vanda. „Allt starfsfólk Forlagsins verður áfram og nú mun raf- og hljóðbókavæðing hjá höfundum þess hljóta byr undir báða vængi, til hagsbóta fyrir lesendur,“ undirstrikar hann.