Stjórn Kennara­sam­bands Ís­lands er með mál til skoðunar hjá undirfélagi samtakanna eftir að starfsmaður tilkynnti um mjög erfið sam­skipti. Óháður út­tektar­aðili, Líf og sál, hefur metið að um ein­elti sé að ræða.

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, staðfestir málið en vill ekki tjá sig um það á þessu stigi.

Starfsmaðurinn, sem ekki vill láta nafns síns getið, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að hann hafi kvartað undan samskiptavanda.

Samkvæmt rannsókn úttektaraðila á samskiptum beitti formaður Félags grunnskólakennara, Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, niðurlægjandi og neikvæðum aðferðum í samskiptum og misbeitti valdi sínu.

Heimildir Fréttablaðsins herma að niðurstaða fyrirtækisins sem gerði samskiptaúttektina hafi verið óvenju afgerandi ef miðað er við sambærileg mál sem upp koma og leiða til rannsóknar.

For­manns­kosningar í Félagi grunnskólakennara standa fyrir dyrum þar sem Þorgerður er í hópi þriggja sem gefa kost á sér í kjör til formanns.

Fréttablaðið hefur ekki náð í Þorgerði en eineltismálið kom til umræðu á framboðsfundi í gærkvöld. Sagði mótframbjóðandi Þorgerðar að um sorglegt mál væri að ræða.

Þorgerður nálgaðist málið á fundinum á þeim nótum að ekki væri um einelti að ræða heldur samskiptaörðugleika. Hún varaði við að dómur væri felldur í málinu.

Þá kom fram gagnrýni á Þorgerði að hafa ekki upplýst um málið áður en hún hóf kosningabaráttu sína.

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, staðfestir að málið sé til skoðunar vill ekki tjá sig um það á þessu stigi.