Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir að hann sé gáttaður á gagnrýni þingmanns á framkomu Einar Þorsteinssonar, fréttamanns á RÚV, í Kastljósi í gær þar sem hann ræddi við Má Kristjánsson, formann farsóttanefndar Landspítalans, um hópsýkinguna sem kom upp á Landakoti í lok október.
Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagði eftir viðtalið í gær að hún væri orðlaus og rasandi eftir áhorf sitt á viðtalið.
„Ég er fullkomlega gáttaður á því að fólk sé að gagnrýna Einar fyrir að vinna vinnuna sína. Það er hans hlutverk og skylda að spyrja þessara spurninga. Þetta er ekki persónulegt. Hann er að sinna sínu starfi og á að gera það. Fólk sem er í þessum stöðum á að geta svarað fyrir sínar gjörðir. Það er háalvarlegt mál að veiran hafi komist aftur inn í landið og stóralvarlegt mál að hún skyldi hafa komist inn á sjúkrastofnun,“ segir Hjálmar í samtali við Fréttablaðið í dag og bætir við:
„Blaðamenn breyta ekki gerðum hlutum. Það er lykilatriði að það sé upplýst um það hvernig þetta mátti gerast svo það sé hægt að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur.“
Fólk má ekki vera hrætt við umræðuna. Það er lykilatriði og það er það sem Einar er að gera.
Hann segir að það að veiran hafi komist inn á slíka stofnun hafi verið það sem allir óttuðust mest og að þrátt fyrir að Landspítalinn hafi gert sitt besta við erfiðar aðstæður verði að vera hægt að ræða málið á opinn hátt.
„Landspítalinn var að gera sitt besta við gríðarlega erfiðar aðstæður. Maður hefur fullan skilning fyrir því en það þarf að ræða þetta mál opinskátt. Fólk má ekki vera hrætt við umræðuna. Það er lykilatriði og það er það sem Einar er að gera. Spyrja þessara nauðsynlegu spurninga og er mjög ómaklegt að það sé verið að gagnrýna hann fyrir það að vinna vinnuna sína. Það er fyrir neðan allar hellur,“ segir Hjálmar að lokum.