Hjálmar Jóns­son, for­maður Blaða­manna­fé­lags Ís­lands, segir að hann sé gáttaður á gagn­rýni þing­manns á fram­komu Einar Þor­steins­sonar, frétta­manns á RÚV, í Kast­ljósi í gær þar sem hann ræddi við Má Kristjáns­son, formann farsóttanefndar Landspítalans, um hóp­sýkinguna sem kom upp á Landa­koti í lok októ­ber.

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagði eftir viðtalið í gær að hún væri orðlaus og rasandi eftir áhorf sitt á viðtalið.

„Ég er full­kom­lega gáttaður á því að fólk sé að gagn­rýna Einar fyrir að vinna vinnuna sína. Það er hans hlut­verk og skylda að spyrja þessara spurninga. Þetta er ekki per­sónu­legt. Hann er að sinna sínu starfi og á að gera það. Fólk sem er í þessum stöðum á að geta svarað fyrir sínar gjörðir. Það er há­alvar­legt mál að veiran hafi komist aftur inn í landið og stór­alvar­legt mál að hún skyldi hafa komist inn á sjúkra­stofnun,“ segir Hjálmar í sam­tali við Frétta­blaðið í dag og bætir við:

„Blaða­menn breyta ekki gerðum hlutum. Það er lykil­at­riði að það sé upp­lýst um það hvernig þetta mátti gerast svo það sé hægt að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur.“

Fólk má ekki vera hrætt við um­ræðuna. Það er lykil­at­riði og það er það sem Einar er að gera.

Hann segir að það að veiran hafi komist inn á slíka stofnun hafi verið það sem allir óttuðust mest og að þrátt fyrir að Land­spítalinn hafi gert sitt besta við erfiðar að­stæður verði að vera hægt að ræða málið á opinn hátt.

„Land­spítalinn var að gera sitt besta við gríðar­lega erfiðar að­stæður. Maður hefur fullan skilning fyrir því en það þarf að ræða þetta mál opin­skátt. Fólk má ekki vera hrætt við um­ræðuna. Það er lykil­at­riði og það er það sem Einar er að gera. Spyrja þessara nauð­syn­legu spurninga og er mjög ó­mak­legt að það sé verið að gagn­rýna hann fyrir það að vinna vinnuna sína. Það er fyrir neðan allar hellur,“ segir Hjálmar að lokum.