For­maður Bænda­sam­takanna, Gunnar Þor­geirs­son, er ekki sáttur við frétta­flutning af fyrir­huguðum kaupum ríkisins á Bænda­höllinni og segir ýmsa lausa enda vera á málinu.

„Þeir [Há­skóli Ís­lands] komu að fyrra bragði til okkar á vor­dögum og höfðu á­huga á húsinu. Á þeim tíma­punkti voru önnur til­boð í gangi sem ekki gengu eftir þannig að þeir komu að þessu aftur seinni­part sumars og sýndu þessu mikinn á­huga. Það var gerð á­stands­skýrsla síðan á húsinu sem fjár­mála­ráðu­neytið hefur kynnt sér og sam­hliða því gerði há­skólinn á­ætlun um breytingar­kostnað fyrir sig sem þeir skiluðu fjár­mála­ráðu­neytinu,“ segir hann.

Að sögn Gunnars hafa Bænda­sam­tökin staðið í við­ræðum við fjár­mála­ráðu­neytið um kaup á Bænda­höllinni á­samt Fé­lags­stofnun stúdenta. Jón Atli Bene­dikts­son, rektor há­skóla Ís­lands, greindi Frétta­blaðinu frá því að ef kaupin myndu ganga eftir fengi há­skólinn 70 prósent hússins til af­nota undir Mennta­vísinda­svið HÍ og Fé­lags­stofnun stúdenta fengi 30 prósent þess undir stúdenta­í­búðir.

„Þannig í raun og veru er há­skólinn ekki að kaupa neitt,“ segir Gunnar og furðar sig á frétta­flutningi um hið gagn­stæða. Gunnar segist ekki hafa séð breytingar­á­ætlun há­skólans og segist því ekki geta tjáð sig um mögu­legar breytingar á húsinu.

„Ég hef ekki hug­mynd um hverjar á­ætlanir há­skólans eru að gera við húsið. Hvað þeir ætla að breyta mörgum her­bergjum í salar­kynni og þar fram eftir götunum. Það er eitt­hvað sem þeir eru búnir að láta meta hjá sér og hafa kynnt fjár­mála­ráðu­neytinu, við erum ekkert í því, við erum að bara að selja hús.“

Bændahöllin var byggð af Bændasamtökunum árið 1962.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sölu­verðið ekki 6,5 milljarðar

Jón Atli Bene­dikts­son greindi frá því að á­ætlaður heildar­kostnaður ríkisins við kaup og fram­kvæmdir á Bænda­höllinni væri 6,5 milljarðar króna. Gunnar kveðst mjög hissa á þessari tölu og segir hana langt frá sölu­verði Bænda­sam­takanna, þó svo hann vilji ekki greina frá því hver sú upp­hæð sé.

„Það er ein­hver önnur tala heldur en við höfum verið að horfa á. Það er bara með ó­líkindum að vera að bendla okkur við það,“ segir hann og bætir við að honum þyki frétta­flutningur af málinu ó­á­byrgur í ljósi þess að ekki sé enn búið að ganga frá samningi um sölu hússins.

„Það er ekki búið að skrifa undir samninginn og á meðan að það er ekki búið þá finnst mér þetta mjög ó­á­byrgt að vera tala um að það sé búið nánast að selja húsið. Því það er ekki búið að kvitta á eitt einasta blað og á meðan það er ekki búið að því þá bara get ég ekki tjáð mig um samninginn. Það er bara á við­ræðu­grunni í augna­blikinu,“ segir Gunnar.

Ekki ljóst hvort Bænda­sam­tökin verði á­fram í höllinni

Sem stendur eru nokkrar stofnanir og fyrir­tæki með starf­semi í Bænda­höllinni, þar með talið Bænda­sam­tökin. Rektor HÍ tjáði Frétta­blaðinu að gert yrði ráð fyrir því að þjónusta verði á­fram í húsinu á vegum rekstrar­aðila þótt há­skólinn tæki yfir húsið. Að­spurður hvort að Bænda­sam­tökin hafi í hyggju að vera á­fram með höfuð­stöðvar sínar í Bænda­höllinni segir Gunnar:

„Það er nú eitt­hvað sem við þurfum að ræða okkar á milli ef að þetta raun­gerist. Það er eitt­hvað sem við þurfum náttúr­lega að ná sam­komu­lagi við há­skólann um leigu á við­komandi rými og hversu miklu. Það er eitt­hvað sem er ó­rætt. Við munum ekki gera það fyrr en við erum búin að kvitta á þetta á­gæta blað og á meðan að það er ekki búið að því þá ætla ég ekki að tjá mig meira um það.“

„Það eru ýmsir lausir endar í þessu,“ segir Gunnar og nefnir sem dæmi að mikið af innan­stokks­munum hússins séu í eigu þrota­bús Hótel Sögu ehf. sem var tekið til gjald­þrota­skipta í haust. Há­skólinn hafi lýst yfir á­huga á því að kaupa ýmis­legt að inn­búi hússins en semja þurfi við skipta­stjóra þrota­búsins um það. Lög­maðurinn Ás­laug Árna­dóttir er skipta­stjóri þrota­bús Hótel Sögu ehf. og var skipta­fundur haldinn síðast­liðinn mánu­dag.