„Því hefur verið haldið fram af fólki, fjöl­miðlum og í ein­hverjum til­fellum fólki innan verka­lýðs­hreyfingarinnar að hreyfingin sé ó­starf­hæf,“ segir Ást­þór Jón Ragn­heiðar­son, for­maður ASÍ-UNG, í skoðana­grein sinni á Vísi, en hann segist hafna þeirri full­yrðingu að verka­lýðs­hreyfingin sé ó­starf­hæf.

„Vissu­lega voru við­burðir þingsins ekki til þess fallnir að auka sam­stöðu, trú­verðug­leika eða traust. Ætla má að róðurinn gæti orðið þungur fram á við og við þurfum að leggja okkur 100 prósent fram í komandi kjara­samningum,“ segir hann.

Ást­þór segir 127 þúsund fé­lags­menn í 5 lands­sam­böndum og 44 aðildar­fé­lögum mynda hreyfinguna. „Hvað hefur breyst? Hvernig erum við ó­starf­hæf,“ spyr hann.

„Það hefur lítið breyst í okkar starfi eftir þing Al­þýðu­sam­bandsins, við förum á­fram í vinnu­staða­eftir­liti, að­stoðum fé­lags­menn, af­greiðum styrki og um­sóknir og höldum á­fram að starfa í þágu fé­lags­manna.“

„Það hefur ekki og mun ekki breytast. Fé­lags­menn verða alltaf í fyrsta sæti,“ segir Ást­þór.

Hann segir það verk­efni verka­lýðs­hreyfingarinnar að koma öflug inn í kjara­við­ræður en sam­hliða því sé nauð­syn­legt að náist að leiða saman ólík sjónar­mið, „grafa stríðs­öxina, sam­mælast og ná sáttum.“