„Því hefur verið haldið fram af fólki, fjölmiðlum og í einhverjum tilfellum fólki innan verkalýðshreyfingarinnar að hreyfingin sé óstarfhæf,“ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson, formaður ASÍ-UNG, í skoðanagrein sinni á Vísi, en hann segist hafna þeirri fullyrðingu að verkalýðshreyfingin sé óstarfhæf.
„Vissulega voru viðburðir þingsins ekki til þess fallnir að auka samstöðu, trúverðugleika eða traust. Ætla má að róðurinn gæti orðið þungur fram á við og við þurfum að leggja okkur 100 prósent fram í komandi kjarasamningum,“ segir hann.
Ástþór segir 127 þúsund félagsmenn í 5 landssamböndum og 44 aðildarfélögum mynda hreyfinguna. „Hvað hefur breyst? Hvernig erum við óstarfhæf,“ spyr hann.
„Það hefur lítið breyst í okkar starfi eftir þing Alþýðusambandsins, við förum áfram í vinnustaðaeftirliti, aðstoðum félagsmenn, afgreiðum styrki og umsóknir og höldum áfram að starfa í þágu félagsmanna.“
„Það hefur ekki og mun ekki breytast. Félagsmenn verða alltaf í fyrsta sæti,“ segir Ástþór.
Hann segir það verkefni verkalýðshreyfingarinnar að koma öflug inn í kjaraviðræður en samhliða því sé nauðsynlegt að náist að leiða saman ólík sjónarmið, „grafa stríðsöxina, sammælast og ná sáttum.“