Innkoma hljóð- og rafbókaþjónustunnar Storytel hefur fallið í grýttan jarðveg meðal hóps rithöfunda og telur Rithöfundasamband Íslands að verið sé að brjóta gegn höfundarrétti rithöfunda þar sem ekki hafi verið samið sérstaklega við þá.

Á Storytel má í dag finna hundruð íslenskra titla, þar á meðal frá kanónum Forlagsins á borð við Arnald Indriðason og marga fleiri. En Egill Örn segir Forlagið ekki hafa gert neinn samning við Storytel. Efnið á veitunni byggi á eldri útgáfu á vegum íslenska hljóðbókafyrirtækisins Skynjunar. Ekkert nýtt efni frá Forlaginu sé þar inni.

Storytel keypti Skynjun á síðasta ári en Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi, var áður í forsvari fyrir Skynjun. Efni sem samningar voru um hjá Skynjun hefur því birst í Storytel.

„Við erum í samtali við Storytel um að efni höfunda Forlagsins, sem kom út á vegum Skynjunar á sínum tíma, verði fjarlægt úr Storytel,“ segir Egill Örn sem býst við að þau mál skýrist fljótlega.

Aðspurður segir Egill að þó Forlagið hafi áform um stóraukna hljóðbókaútgáfu sjálft, standi ekki til að fara í samkeppni við Storytel með áskriftarsölu líkt og sænska fyrirtækið býður upp á.

„Við höfum engin áform um að hefja áskriftarsölu, hvorki á hljóðbókum né öðru.“