Foreldrum barna í Ingunnarskóla í Grafarholti í Reykjavík var í morgun tilkynnt að smit hefði komið upp hjá starfsmanni skólans. Þetta kemur fram í bréfi sem Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjóri sendi á foreldra og Fréttablaðið hefur undir höndum.
Þar kemur fram að viðkomandi starfsmaður hafi síðast verið í vinnu á föstudaginn var. Hann hafi því ekki verið í skólanum eftir að skólastarf hófst. Þrír aðrir starfsmenn þurfa í sóttkví vegna þessa.
Segir Guðlaug að skólastarf verði með eðlilegum hætti í skólanum þrátt fyrir þetta. Hinsvegar verði skólasund fellt niður.
Tekur hún fram að vel sé hugað að sóttvörnum í skólanum, í samræmi við vinnureglur frá sóttvarnalækni og Reykjavíkurborg. Fréttablaðið náði ekki tali af Guðlaugu í morgun vegna málsins.