Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um sorgarleyfi vegna makamissis. Að sögn Þorbjargar er frumvarpið útvíkkun á lögum sem samþykkt voru í sumar, um sorgarleyfi í kjölfar barnsmissis.
„Þau lög fólu í sér mjög mikilvægt nýmæli um sorgarleyfi fyrir foreldra sem misst hafa barn og líka í þeim tilvikum þar sem um er að ræða andvana fæðingar. Það sem ég er að leggja til núna er útvíkkun á því að það sé veitt sorgarleyfi fyrir eftirlifandi foreldri í kjölfar þess að barn missi foreldri sitt. Þá er eftirlifandi foreldri í þeirri erfiðu stöðu að þurfa bæði að glíma við sorgina yfir að hafa misst maka og það stóra og þunga verkefni að vera til staðar fyrir barn eða börn sín í kjölfar þess,“ segir Þorbjörg.
Hugmyndin og fókuspunkturinn sé á börnin og að taka utan um og styðja um þær fjölskyldur þar sem móðir eða faðir deyr frá börnum sínum.
„Þetta eru sorglega mörg börn á litla Íslandi sem á hverju ári standa frammi fyrir þeim veruleika að missa foreldri sitt. Þetta eru rúmlega eitt hundrað börn á ári,“ segir Þorbjörg.
Að sögn Þorbjargar ríkti þverpólitísk sátt um frumvarpið um sorgarleyfi vegna barnsmissis, sem samþykkt var á Alþingi um miðjan júní, þar sem þingmenn hafi sýnt mikinn samhug þegar málið var afgreitt.
„Ég held að allir foreldrar geti tengt við þann harm og þá sáru sorg að missa barn, og allir geti skilið að þetta er eitthvað sem hefur þannig áhrif á lífið að það þurfi einfaldlega svigrúm og jafnvel leyfi frá vinnumarkaði,“ segir hún.
Þorbjörg segist bjartsýn á að hún fái að flytja frumvarpið á Alþingi fyrir jól og bindur vonir við að það geti orðið að lögum sem fyrst.
„Þar sem þetta er svo einföld breyting og tæknilega ekki flókin, þá fannst mér algjörlega ástæðulaust að bíða með þetta. Þetta er ekki mál sem allir flokkar geta ekki sammælst um,“ segir Þorbjörg.
„Hugsunin um að það séu hundrað börn á Íslandi sem upplifa þetta á hverju einasta ári... þá finnst mér þetta falleg skilaboð til þessara fjölskyldna frá samfélaginu að segja: Við viljum vera til staðar og ætlum að vera til staðar.“