Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dóttir, þing­maður Við­reisnar, hefur lagt fram frum­varp á Al­þingi um sorgar­leyfi vegna makamissis. Að sögn Þor­bjargar er frum­varpið út­víkkun á lögum sem sam­þykkt voru í sumar, um sorgar­leyfi í kjöl­far barnsmissis.

„Þau lög fólu í sér mjög mikil­vægt ný­mæli um sorgar­leyfi fyrir for­eldra sem misst hafa barn og líka í þeim til­vikum þar sem um er að ræða and­vana fæðingar. Það sem ég er að leggja til núna er út­víkkun á því að það sé veitt sorgar­leyfi fyrir eftir­lifandi for­eldri í kjöl­far þess að barn missi for­eldri sitt. Þá er eftir­lifandi for­eldri í þeirri erfiðu stöðu að þurfa bæði að glíma við sorgina yfir að hafa misst maka og það stóra og þunga verk­efni að vera til staðar fyrir barn eða börn sín í kjöl­far þess,“ segir Þor­björg.

Hug­myndin og fókus­punkturinn sé á börnin og að taka utan um og styðja um þær fjöl­skyldur þar sem móðir eða faðir deyr frá börnum sínum.

„Þetta eru sorg­lega mörg börn á litla Ís­landi sem á hverju ári standa frammi fyrir þeim veru­leika að missa for­eldri sitt. Þetta eru rúm­lega eitt hundrað börn á ári,“ segir Þor­björg.

Að sögn Þor­bjargar ríkti þver­póli­tísk sátt um frum­varpið um sorgar­leyfi vegna barnsmissis, sem sam­þykkt var á Al­þingi um miðjan júní, þar sem þing­menn hafi sýnt mikinn sam­hug þegar málið var af­greitt.

„Ég held að allir for­eldrar geti tengt við þann harm og þá sáru sorg að missa barn, og allir geti skilið að þetta er eitt­hvað sem hefur þannig á­hrif á lífið að það þurfi ein­fald­lega svig­rúm og jafn­vel leyfi frá vinnu­markaði,“ segir hún.

Þor­björg segist bjart­sýn á að hún fái að flytja frum­varpið á Al­þingi fyrir jól og bindur vonir við að það geti orðið að lögum sem fyrst.

„Þar sem þetta er svo ein­föld breyting og tækni­lega ekki flókin, þá fannst mér al­gjör­lega á­stæðu­laust að bíða með þetta. Þetta er ekki mál sem allir flokkar geta ekki sam­mælst um,“ segir Þor­björg.

„Hugsunin um að það séu hund­rað börn á Ís­landi sem upp­lifa þetta á hverju einasta ári... þá finnst mér þetta fal­leg skila­boð til þessara fjöl­skyldna frá sam­fé­laginu að segja: Við viljum vera til staðar og ætlum að vera til staðar.“