„Það er ljóst að ekki var gert við allar skemmdirnar í Fossvogsskóla. Nú eru nýjar skemmdir að myndast og börn eru farin að veikjast,“ segir Magnea Árnadóttir, foreldri barns í Fossvogsskóla. Leki hefur komið upp í vesturbyggingu Fossvogsskóla þrátt fyrir endurbætur sem kosta áttu hátt í hálfan milljarð króna. Myndir sem Fréttablaðið hefur undir höndum sýna rakaskemmdir í öðrum byggingum skólans sem ekki var gert við.

Fossvogsskóli_6.jpg

Húsnæði Fossvogsskóla var lokað að hluta í mars í fyrra eftir að upp komst um myglu. Var hluti barnanna hýstur í húsnæði KSÍ í Laugardal. Einungis komst upp um mygluna í úttekt sem ráðist var í eftir að foreldrar kvörtuðu vegna veikinda barna. Skömmu áður höfðu verið gerðar mælingar.

Ráðist var í umfangsmiklar framkvæmdir við Fossvogsskóla í fyrra vegna myglunnar.
Fréttablaðið/Valli

Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að reynt hafi verið að koma í veg fyrir lekann í vesturbyggingunni síðan í desember en viðgerðir ekki tekist að fullu. Slæmt tíðarfar undanfarinna vikna hefur gert viðgerðarmönnum erfitt fyrir. Verður farið yfir það með fagaðilum hverju hafi verið ábótavant við verkið.

Magnea segir vesturbygginguna einungis vera nýjasta dæmið, ekki hafi verið gert við allar skemmdir í miðbyggingunni. „Það var ekki gert við alla gömlu lekana, þvert á það sem okkur foreldrum var lofað,“ segir Magnea. „Staðan var svo alvarleg og við treystum því að það yrði allt lagað. Síðan eru börn aftur að veikjast og þessar skemmdir enn til staðar.“

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins 03.jpg

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur fylgst grannt með gangi mála í Fossvogsskóla frá því það kom fyrst upp. „Það er mjög alvarlegt að skólinn leki þrátt fyrir að búið sé að eyða nærri hálfum milljarði í viðgerðir. Húsnæðið liggur greinilega enn undir skemmdum og ég set stórt spurningarmerki við verkferla Reykjavíkurborgar,“ segir Valgerður.

Ítrekar Valgerður kröfu sína um að farið verði í úttekt á öllu skólahúsnæði í borginni í ljósi þess að viðhald safnaðist upp á árunum eftir hrun. „Ég ætla að reka á eftir því. Forsagan í Fossvogsskóla veldur því að foreldrar eru ekki að gleypa við mælingum um að ekki sé að finnast mygla, það þarf að ráðast í úttekt.“

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sagði í samtali við Fréttablaðið í fyrra að ekki sé nóg að drepa myglu. Það þurfi að hreinsa hana alveg í burtu til að koma í veg fyrir að agnir úr henni berist í fólk, þá séu börn viðkvæmust fyrir slíkri mengun.

Magnea segir foreldra ekki fá nein svör frá Reykjavíkurborg. „Ég er alltaf að heyra af fleiri og fleiri börnum sem eru að veikjast. Þau eru í lögbundnu námi og við erum ekki að sjá að hagsmuna þeirra sé gætt. Reykjavíkurborg svarar ekki tölvupóstum frá okkur og virðist borgin ætla að þegja þetta af sér.“

Tímalína atburða

September 2018
Mannvit tekur rakasýni.

Nóvember 2018
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefur Fossvogsskóla háa eink­unn.

Desember 2018
Ráðist í alþrif á húsnæðinu.

Janúar 2019
Farið í úttekt á húsnæðinu eftir að nemendur fundu til verulegra óþæginda.

Mars 2019
Fossvogsskóli rýmdur að hluta vegna myglu og ráðist í umfangsmiklar framkvæmdir.

Ágúst 2019
Skólahald hefst á ný í Fossvogsskóla.

Janúar 2019
Leki kemur upp í þaki skólans.