Foreldrar unglingsstúlku í Dalvíkurbyggð sem lenti í átökum við kennara sinn undir lok vorannar árið 2021 furða sig á vinnubrögðum Kennarasambands Íslands.

Kennarasamband Íslands birti frétt á fimmtudaginn síðastliðinn þar sem greint var frá úrskurði héraðsdóms Norðurlands í máli grunnskólakennara við Dalvíkurbyggð.

Kennaranum voru dæmdar átta milljónir króna í skaðabætur vegna uppsagnar sem átti sér stað í kjölfar átakanna við nemandann. Kennarinn hafði gefið stúlkunni kinnhest eftir að hafa fengið einn slíkan frá henni áður.

Dalvíkurbyggð aldrei nefnd í dómnum

Í dómnum sjálfum var Dalvíkurbyggð aldrei nefnd og engin nöfn voru birt. Hins vegar voru þær upplýsingar gefnar í frétt Kennarasambandsins.

„Við búum í litlu samfélagi og þegar þetta gekk á sínum tíma, vissu allir um hverja væri verið að ræða,“ segja foreldrar stúlkunnar í samtali við Fréttablaðið og bæta við að með birtingu fréttar Kennarasambandsins hafi þeir í raun bent beint á dóttur þeirra.

Þau Magnea Rún Magnúsdóttir og Kristján Már Þorsteinsson, foreldrar stúlkunnar, birtu færslu á Facebook í gær vegna málsins.

„Við furðum okkur á þeirra vinnubrögðum. Þau eru að sýna svo mikinn stuðning til kennarans og eru augljóslega með sínum fréttaflutning ekki að hugsa um hag 13 ára barns,“ segja þau Magnea Rún og Kristján Már.

Magnea Rún bætir við að bæjarfélagið sé lítið og íbúar þess ekki nema um tvö þúsund. Hvergi í dómnum hafi verið tekið fram að um Dalvíkurbyggð væri að ræða.

„Með því tilgreina Dalvíkurbyggð og í þessu litla félagi vissu allir um hvaða kennara var að ræða og hvaða barn var að ræða.“

Hagsmunir barns ekki að leiðarljósi

Kristján Már segir að Kennarasambandið hafi augljóslega ekki haft hagsmuni barns að leiðarljósi með þessum fréttaflutningi, eingöngu kennarans og að dómurinn hafi verið einhliða frásögn kennarans. Hvorki dóttir þeirra né þau hafi verið kölluð til vegna málsins og að þau hafi ekki vitað af því.

Aðspurð um það hvort að dóttir þeirra vissi af umfjöllun málsins segja þau Magnea Rún og Kristján Már svo vera. Hún hafi þó ekki lesið samfélagsmiðla eða fréttir um málið. „Hún vissi af þessu en þetta var ekki auðvelt fyrir okkur foreldrana.“

Þá hafi það verið mjög erfitt að lesa umfjöllun og umsagnir fólks um málið „og hafa í raun engar varnir fyrir barnið okkar.“

„Með því tilgreina Dalvíkurbyggð og í þessu litla félagi vissu allir um hvaða kennara var að ræða og hvaða barn var að ræða“

Einlæg yfirlýsing

Í Facebook-færslu þeirra hjóna fara þau yfir málið með einlægum hætti en eftir umfjöllun málsins fannst þeim þau knúin til að deila sínu sjónarhorni um það.

„Öllum verður okkur á einhvern tímann á lífsleiðinni. Það á við um unglinga, foreldra, fjölskyldur og meira að segja fagaðila þvert yfir sviðið. Undanfarna daga hefur umræðan verið hávær um afskipti kennara og barns í okkar litla samfélagi.

Í kjölfar umræðunnar finnum við okkur knúin til að stinga niður penna og deila með ykkur tilfinningum og hugsunum okkar, foreldra nemandans sem hefur verið til umræðu í þessu erfiða máli. Það er okkur nefnilega ljóst að í umræðunni hefur rödd okkar og 14 ára dóttur okkar ekki fengið að heyrast.“

„Barnið okkar getur lesið ítarlegar greinar um eigið ágæti og er algjörlega varnarlaus. Það reitir okkur til reiði“

Sjálfsvígshugsanir

Fram kemur í færslunni að dóttir þeirra hafi gengið í gegnum mikið þunglyndi, kvíða og erfiðar sjálfsskaðahugsanir sem hafi oft borið hana ofurliði. Erfitt sé að lýsa tilfinningunni að þurfa ganga með 13 ára barnið sitt á bráðamóttöku því það þurfi aðstoð vegna sjálfsvígshugsana.

„Það er því sárt að lesa fréttir um barnið okkar og hennar baráttu og hvað þá að lesa athugasemdakerfi fjölmiðlanna. Þar er dóttir okkar stimpluð sem forhertur vandræðagemlingur, óalandi nemandi og einkar dónalegur unglingur.

Hún er máluð sem óargardýr og sú lýsing meira að segja sett út á heimasíðu dómstólsins, í yfirlýsingum og á síðum fjölmiðla. Þar kemur hvergi fram að margt býr að baki erfiðrar hegðunar barnsins okkar og áfallasaga hennar er samofin þeirri hegðun,“ segir jafnfram í færslunni.

„Barnið okkar getur lesið ítarlegar greinar um eigið ágæti og er algjörlega varnarlaus. Það reitir okkur til reiði.“

Rangfærslur í dómnum

Þau segja jafnframt að þau hafi ekkert út á dóminn að setja, þau geri sér fyllilega grein fyrir því að ekki hafi verið staðið rétt að málum hvað uppsögn kennarans varðar.

„Ekki frekar en í mörgum málum dóttur okkar í skólanum þar sem hennar traust var oft brotið. Niðurstaða héraðsdóms var því á þá leið að lög voru brotin og því tapar Dalvíkurbyggð málinu. Af þessu getum við öll svo dregið einhvern lærdóm.“

Þá leiðrétta þau ýmsar rangfærslur í dómnum, að þeirra mati, þar sem umræðan hefur verið einhliða og að ferill kennarans sé ekki flekklaus líkt og haldið er fram í dómnum.

„Hvergi í dómnum kom fram að dóttir okkar, sem sat á grasinu á skólatíma í kennslustund hjá kennaranum, var með nýlega skurði á úlnliðnum og framhandlegg. Hún ítrekað bað kennarann um að sleppa hendinni á sér áður en hún brást við með þeim hætti sem við vitum öll hver var, hún slær til kennarans.

Okkur þykir virkilega miður að hún hafi fundið sig knúna til að þurfa að bregða til þessa ráðs. Við höfum reynt að kenna börnunum okkar að það eigi aldrei að beita ofbeldi og hvergi ætlum við að halda því fram að hún hafi mátt slá til kennara síns. Við vitum vel að starf kennara er óeigingjarnt, slítandi og það getur reynt á þolrifin þegar nemendur hlýða ekki fyrirmælum.

Því hvarflar ekki að okkur að réttlæta gjörðir dóttur okkar en við viljum þó hvetja alla til að hafa í huga að - aðgát skal höfð í nærveru sálar,“ segir í færslunni.

Magnea Rún og Kristján Már segja í samtali við Fréttablaðið dóttur sína sterkan karakter og að henni líði mun betur og á góðum stað í dag.

Færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.