Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskóla, Ragnheiður Davíðsdóttir, lýsti á sameiginlegum fundi skóla- og frístundaráðs og umhverfis- og heilbrigðisráðs á mánudag yfir vantrausti á Verkís og ráðin tvö vegna framkvæmda við Fossvogsskóla.

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kynnti líðan barns sem hún þekkir til og er í 7. bekk í Fossvogsskóla á fundi borgarstjórnar á þriðjudag. Sú stúlka hefur verið fárveik í hartnær þrjú ár og átt í erfiðleikum með að vera í tímum.

Ragnhildur sagði hana eiga erfitt með að leika við vini sína vegna höfuðverkja sem lýsa sér þannig að hún lamast vegna sársauka.

„Stúlkan hefur kastað upp vegna sársauka og það hefur liðið yfir hana,“ sagði hún. Þá sé hún með mikla taugaverki í líkamanum og læknar sem hafa skoðað litlu stúlkuna séu allir sammála um að ástæðan sé myglan í skólanum.

Fréttablaðið fékk póst frá afa barns í skólanum fyrir skömmu. Sá drengur var sagður hafa verið lífsglaður og ánægður en lífið sé nú orðið honum erfitt. Strákurinn hafi þurft að leita enn einu sinni til læknis fyrir skömmu, nú vegna sýkingar í augum. Undanfarin ár hafi verið honum erfið og hann sé kominn með flókna sjúkrasögu. Margoft fengið óeðlilegar blóðnasir, verið rannsakaður í þaula, meðal annars höfuð skannað en ekkert óeðlilegt fundist. Hann sé oft frá skóla vegna maga- og höfuðkvala.

Á fundi borgarstjórnar kom fram að eitt barn hefði þegar hætt í skólanum og að tíu börn væru veik vegna ástands skólans. Ragnheiður segir að tölurnar séu allt of lágar.

„Barnið sem hún Ragnhildur talaði um er bara eitt barn af mörgum sem glímir við skelfilegar afleiðingar,“ segir Ragnheiður. „Það er fáránlegt að óeðlilegar blóðnasir þekkist meðal barna í sama skólanum. Þetta er bara einn strákur af mörgum börnum sem eru að þjást. Og ekki bara börnin því það er einn kennari kominn í veikindaleyfi.“

Stutt er síðan að foreldrar barna í Fossvogsskóla sendu frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að traust þeirra til borgarinnar væri brostið. Börnin séu ennþá veik, þriðja skólaveturinn í röð, og þar sé enn að finna hættulegar myglutegundir sem geta valdið krabbameini.

Sigríður Ólafsdóttir, foreldri barns við Fossvogsskóla, segir að hún vilji gjarnan fá verkfræðistofuna Eflu að málinu í stað Verkís. Mannvit hafi leitað að myglu en ekki fundið og skólanum hafi svo verið lokað fjórum mánuðum síðar.

„Ég held að þetta sé fullreynt hjá Verkís. Þeir hafa verið í þessu lengi og ekki tekist að laga þetta. Þess vegna treystum við foreldrar þeim ekki lengur,“ segir Sigríður sem kveður veikindasögurnar keimlíkar.

„Þetta er saga margra barna í Fossvogsskóla. Á fundi borgarstjórnar kom einnig fram að okkur foreldrum hefur verið lýst sem móðursjúkum, hysterískum með annarlegar hvatir á bak við þegar það eina sem við viljum er að börnin okkar séu heilbrigð í skólanum.“