Mikið álag hefur verið á starfsfólki Barnaspítala Hringsins undanfarið vegna alls kyns pesta sem eru fyrr á ferðinni en vant er. Ragnar Grímur Bjarnason yfirlæknir hvetur foreldra ungbarna til að takmarka aðgengi við aðra á þessum tímum vegna RSV-vírussins.

Blaðið greindi í gær frá áhyggjum foreldra barna á leikskóla yfir fjölda pesta sem nú ganga. Sum börn fái pestir ofan í pestir og sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, að það væri svo sannarlega meira álag á Heilsugæslunni vegna fjölda umgangspesta líkt og inflúensu.

Ragnar Grímur Bjarnason, yfirlæknir á Landspítalanum.
Mynd/aðsend

„Við finnum mikið fyrir því að veirur eru mjög mikið á ferðinni, venjulegt kvef og slæmar iðra­kveisur,“ segir Ragnar. Hann segir það valda miklum áhyggjum hve snemma inflúensan og RSV-vírusinn séu á ferðinni. Þetta nái sér vanalega á strik upp úr áramótum.

„Inflúensa hefur ekki verið mikið á ferðinni undanfarin Covid-ár og því er mjög stór hluti yngri árganga sem ekki hefur verið útsettur fyrir henni. Því eru margir sem geta veikst.“

Sama megi segja um RSV-veiruna sem leggist þungt á sérstaklega yngri börn og aldraða en átti erfitt uppdráttar á tímum sóttvarnaaðgerða.

„Engin meðferð er til við RSV, aðeins styðjandi meðferð, sum sé að gefa öndunarstuðning ef þörf er á og ef börn ná ekki að drekka, vökva og mat með sondu,“ segir Ragnar.

„Foreldrar með ungbörn ættu að takmarka umgengni við aðra á þessum tíma ef það er hægt, þar sem RSV leggst sérstaklega þungt á yngstu börnin. Það er til mikils að vinna að börn sýkist af RSV eftir sex mánaða aldur eða seinna.“

Ragnar bætir því við að mikilvægt sé að leita ekki á Barnaspítalann eða aðra heilbrigðisþjónustu að óþörfu. „Það eykur álag og tekur athygli frá bráðveikum sjúklingum.“