Bryndís Valgarðsdóttir, skólastjóri í Hlíðarskóla, hefur unnið með ungum drengjum í nærri fjóra áratugi. Í vetur er hún með 15 nemendur í skólanum, allt drengi. Skólinn er í Eyjafirði og býður upp á tímabundið úrræði með sérhæfingu í að vinna úr vanda sem er ekki hægt að leysa í öðrum grunnskólum.

„Það er svo margt sem þeir eru að takast á við, oft er námsvandi aðeins afleiðing af öðrum vanda,“ segir Bryndís. „Á síðustu árum hef ég verið að sjá þá meira og meira brotna inn á við. Þeir eru að missa sjálfstraustið, sumir fara þá leið að vera með uppsteyt og læti. Aðrir vilja helst loka sig af, tölvurnar eru til dæmis afskaplega þægileg flóttaleið.“

Hún telur ekki að vandi af þessu tagi sé bundinn við drengi. „Stúlkur fela þetta betur og komast oft miklu lengra áður en það fer að steyta á. Drengirnir eru meira með þetta uppi á yfirborðinu og við sjáum vandann mun fyrr.“

Bryndís segir hörkuna og kröfur samfélagsins gera það að verkum að drengir finna fyrir stefnuleysi. Eitt af vandamálum samfélagsins sé að leggja of mikla áherslu á bóknám og háskólamenntun. 

„Er sá sem er flinkur að lesa eitthvað betri en sá sem er flinkur í að vinna með höndunum? Við erum að brjóta svo marga niður með ofuráherslu á bóknám. Ég held að unga fólkið okkar vanti jafnvægi, að það sé talið flott að gerast smiður eða rafvirki.“

Í Hlíðarskóla er unnið út frá heildstæðri nálgun. „Það er ekki barnið sem á í vanda, það er fjölskyldan. Foreldarnir eru lykillinn að því að líðan þeirra breytist. Hér starfar fjölskylduráðgjafi og foreldrarnir taka mikinn þátt í starfinu við að hjálpa barninu. Það eru sett samstillt markmið. Þetta eru langoftast feikilega flottir foreldrar sem eru einfaldlega fastir í vítahring.“

Bryndís myndi helst vilja sjá fjölskylduráðgjafa í hverjum grunnskóla og jafnvel skylda foreldra á námskeið samhliða því að skrá börn í leik- og grunnskóla. „Þau þurfa að læra að vera foreldri, ekki vinur. Það eru svo margir sem festast í vinahlutverkinu til að láta allt ganga vel. En barnið þarf að treysta á að foreldrar séu til staðar til að setja þeim mörk og styðja þau áfram. Þeir sem þurfa mest á þessu að halda eru ólíklegastir til að mæta, því myndi ég vilja gera þetta að skyldu.“