Foreldrar barna í Reykjavík sem bíða eftir dagvistunar­úrræði ætla að fjölmenna í Ráðhúsið í dag, en fyrsti fundur borgarstjórnar eftir sumarfrí er á dagskrá klukkan tvö.

Ingi Bekk, ljósahönnuður og foreldri barns á biðlista, segir foreldra ætla að sitja á pöllunum á meðan á fundi borgarstjórnar stendur og krefjast úrlausna í dagvistunarmálum í Reykjavík.

„Það er ekki verið að sinna þessum málaflokki nægilega vel, en hann er sá mikilvægasti sem borgin þarf að sinna,“ segir Ingi. „Það er talsvert af foreldrum sem rýkur úr af reiði vegna aðgerðaleysis borgarinnar og því er mikilvægt fyrir foreldra að vera sýnileg og hafa hátt.“

Aðspurður segist Ingi búast við góðri mætingu í Ráðhúsið í dag þar sem fjölmargir foreldrar sitji nú fastir heima með börn sín og bíði í ofvæni eftir leikskólaplássi.

„Ég er til dæmis búinn að vera fastur heima síðan í apríl með nítján mánaða gamalt barn. Ég missti vinnuna fyrir þremur mánuðum síðan og hef ekki verið að sækja um nein störf þar sem óvissan í þessum málum hefur verið það mikil,“ segir Ingi.

Mótmælin í dag séu fyrsta skrefið í langri baráttu foreldra sem bíði eftir dagvistunarúrræði fyrir börnin sín.

„Ætlunin í framhaldinu er að fylla pallana á hverjum einasta borgarstjórnarfundi þangað til það er komin lausn á þessu máli,“ segir Ingi.