Foreldrafélag Fossvogsskóla hefur leitað til lögmanns þar sem ekki berast svör frá Reykjavíkurborg um stöðu húsnæðis skólans. Borgin segir að svar muni berast á næstu dögum.

Húsnæði Fossvogsskóla var lokað að hluta í mars í fyrra vegna myglu. Framkvæmdir við skólann kostuðu hátt í hálfan milljarð króna. Upp um mygluna komst í úttekt sem ráðist var í eftir að foreldrar kvörtuðu vegna veikinda barna. Ekki eru allir foreldrar sannfærðir um að búið sé að uppræta mygluna og sendi foreldrafélagið erindi á skóla- og frístundasvið þann 21. febrúar síðastliðinn þar sem óskað var eftir svörum um stöðu framkvæmda í skólanum, en þá var þeim ekki lokið. Ekkert svar hefur borist þrátt fyrir ítrekanir.

Um miðjan mánuðinn sendi lögmaður foreldrafélagsins áskorun á borgarstjóra um að svara erindinu. Þar sem engin viðbrögð hafa borist við því hyggst foreldrafélagið leggja fram kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að freista þess að fá svör.

„Öll svið borgarinnar hundsa okkur og meirihluti kjörinna fulltrúa þegir þunnu hljóði. Þá neyðumst við til að leita til ytri eftirlitsaðila til að knýja fram svör. Þessi kæra er bara hluti af þeirri vegferð að fá samtal við borgina um hvort húsnæðið sem við sendum börnin okkar í sé öruggt eða ekki,“ segir Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla.

„Við erum ekki að biðja um að öðrum hálfum milljarði sé eytt eða sprengja húsið til grunna. Við viljum bara fá staðfestingu á að börnin okkar séu óhult í höndum borgarinnar.“

Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að upplýsingarnar sem beðið var um séu byggingatæknilegs eðlis og því hafi fyrirspurninni verið vísað til umhverfis- og skipulagssviðs.

„Svar þaðan hefur borist og foreldrafélagið mun því fá svar á allra næstu dögum. Skóla- og frístundasvið biðst velvirðingar á töfum sem hafa orðið á afgreiðslu svars en það hefur m.a. tafist vegna ýmissa aðstæðna í samfélaginu.“