Landsréttur dæmdi í dag mann í tveggja ára fangelsi og staðfesti sex mánaða skilorðsbundin dóm yfir konu fyrir brot gegn dætrum sínum. Maðurinn og konan voru hjón þegar brotin voru framin.
Maðurinn var sakfelldur fyrir stórfelld brot í nánu sambandi gagnvart fjórum dætrum þeirra, með því að hafa ítrekað, endurtekið og á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt ógnað lífi dætranna með líkamlegu og andlegu ofbeldi.
Þá hlaut hann jafnframt dóm fyrir líkamsárás gagnvart þáverandi eiginkonu sinni, en hún hlaut einnig dóm fyrir líkamsárásir gegn þremur dætrum sínum.
Málið kom upp í júní árið 2020, en gefið er til kynna í dómnum að dæturnar væru allar börn þegar málið kom upp. Brotin áttu sér stað frá því í maí 2018 til ágúst 2020
Ítrekað slegnar með ýmsum munum
Ákæruliðirnir í málinu eru fjölmargir og eru ofbeldislýsingarnar í þeim ef til vill ekki fyrir viðkvæma.
Maðurinn var til að mynda ákærður fyrir að slá dætur sínar margoft víðs vegar um líkamann, líkt og í hendur fætur, bak, rass, háls og andlit, ýmist með belti, skóm, flötum lófa, herðatré, leikfangapíanói, fötum og eftir atvikum því sem hendi var næst. Þar að auki var hann ákærður fyrir að kasta í þær skóm og hrækja á þær.
Fram kemur í ákærunni að þetta hafi að mestu leiti átt sér stað á heimili þeirra, oftast í svefnherbergi stúlknanna.
„Ég veit allt um þig og er að fylgjast með þér“
Eftir að málið kom upp sendi maðurinn síðan elstu dótturinni ítrekað skilaboð á Messenger, á meðan þær voru vistaðar utan heimilis.
„Manstu þetta ennþá“, „Hvar ertu“, „Ég veit hvar þú ert“, „Kíktu út í glugga eftir 15 mínútur, þá sérðu mig fyrir utan“ og „bara þú veist og ég segi þetta aftur, ég kem í draumana þína, ég kem innundir buxurnar þínar, ég veit allt um þig og er að fylgjast með þér“ var á meðal skilaboða sem maðurinn sendi, sem og: „ertu að skella á mig hóran þín, svaraðu mér hóran þín, sjáum til hóran þín“.
Jafnframt á hann að hafa hótað henni ofbeldi og lífláti ef hún myndi ekki breyta framburði sínum í málinu.
Sífellt hrædd við eiginmanninn
Maðurinn var einnig ákærður fyrir stórfelld brot í nánu sambandi gagnvart þáverandi eiginkonu sinni með því að hafa „ítrekað, endurtekið og á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt ógnað lífi hennar, heilsu og velferð með andlegu og líkamlegu ofbeldi og hótunum.“ Hann hafi, stundum oft í viku, hrækt á hana, öskrað á hana og ýtt henni.
Þá er tekið fram í ákærunni að hann hafi beitt dæturnar ofbeldi í viðurvist móðurinnar, sem hafi reynt að fá hann til að hætta því. Þá hafi hann „sagt að hún væri einskis virði, hrækt á hana og ýtt henni í viðurvist stúlknanna.“ Fram kemur að vegna þess hafi hún stöðugt verið hrædd við hann í hjónabandinu
Börnum refsað fyrir að þrífa ekki heimilið
Konan var ákærð fyrir stórfelld brot í nánu sambandi og barnaverndarlagabrot með því að beita þrjár dætranna í refsingarskyni ítrekuðu, margendurteknu og stöðugu líkamlegu ofbeldi á heimili þeirra.
Henni var til að mynda gefið að sök að toga fast í hár þeirra og dregið þær eftir gólfinu á hárinu, slegið þær margoft víðs vegar um líkama víðs vegar um líkamann með herðatré, höndum eða skafti af skúringarmoppu. Fram kemur að ástæðan hafi jafnan verið sú að hún taldi stúlkurnar ekki hafa þrifið heimilið.
Breytti framburði sínum um dótturina
Maðurinn neitaði sök í málinu í héraðsdómi, en fram kemur að framburður hans fyrir Landsrétti hafi ekki haft áhrif á neitt varðandi úrlausn hans mála. Í héraðsdómi segir að hann hafi í fyrstu talað fallega um elstu dóttur sína. Hún væri „mikil pabbastelpa, hlýðin og dugleg að læra og lesa“. Síðan breyttist sá framburður og sagði hann að hún væri „ofbeldisfull, lemdi yngri systkini sín og neitaði að lesa“.
Fátt þótti styðja framburð föðurins, en hins vegar þótti framburður dætranna stöðugur.
Fyrir Landsrétti gekkst konan við því að hafa slegið elstu þrjár dætur sína létt á handarbak eða rass, en það hafi verið þegar þær gerðu eitthvað rangt. Þó sagðist hún aldrei hafa beitt þær ofbeldinu sem henni var gefið að sök. Hún tók fram að hún hefði aldrei séð manninn beita dæturnar ofbeldi, en vitað af því þegar hún heyrði þær gráta.
Gert að greiða stúlkunum margar milljónir
Líkt og áður segir hlaut maðurinn tveggja ára fangelsisdóm, en í Héraðsdómi Reykjaness hafði hann hlotið átján mánaða dóm. Til frádráttar frá refsingunni er sá tími sem maðurinn hefur sætt í gæsluvarðhaldi, en það eru rúmlega sex mánuðir.
Þá staðfesti Landsréttur sex mánaða dóm konunnar, sem er skilorðsbundinn til tveggja ára.
Manninum er einnig gert að greiða þremur elstu dætrum sínum hverri um sig tvær og hálfa milljón króna, og þeirri yngstu eina og hálfa. Konunni var gert að greiða þremur elstu dætrunum 800 þúsund krónur.