Eftir að Lyfjastofnun innkallaði á dögunum svefnlyfið Theralene sem er einkum notað vegna svefnvanda barna hafa foreldrar nú ekkert sambærilegt lyf fyrir börn sín.

Ástæða innköllunarinnar var sögð vera vegna þess að fyrirmæli lækna um skammtastærðir lyfsins samanborið við sprautu sem fylgdi lyfinu gætu verið misvísandi. Merking sprautunnar væri ekki í samræmi við fylgiseðil og þessar misvísandi upplýsingar gætu leitt til ofskömmtunar með tilheyrandi eitrunaráhrifum.

RÚV greindi frá því í lok júlí að ungt barn hefði verið lagt inn á spítala eftir að hafa fengið of stóran skammt af lyfinu.

Lyf ekki nauðsynleg

Kristín Björg Flygenring, hjúkrunarfræðingur og svefnráðgjafi á Landspítala, segir ekki biðlista eftir svefnráðgjöf á Landspítala eins og staðan er í dag. Það geti tekið smá bið að komast að, þó ekki nema nokkrar vikur. Hún segir ráðgjafateymi Landspítalans meðvitað um notkun svefnlyfja fyrir börn hér á landi.

Aðspurð í hvaða tilfellum svefnlyf hjálpi börnum þegar svefnvandamál er til staðar segir Kristín Björg að nánast undantekningalaust sé hægt að hjálpa foreldrum með vandamál barnanna án lyfja.

Ekkert sambærilegt lyf fáanlegt

Upphaflega var foreldrum ungra barna með svefnvanda ávísað lyfinu Vallergan, en það hætti í sölu hér á landi fyrir rúmu ári samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Undanþágulyfið Alememazine Orifarm kom í stað Vallergan en það lyf hefur ekki íslenskt markaðsleyfi.

Samkvæmt vef Lyfjastofnunar bera íslenskir læknar sem ávísa því lyfi ábyrgð á því að upplýsa sjúkling eða umráðamanni um það og gera grein fyrir mögulegum aukaverkunum og öðrum upplýsingum sem kunna að vera nauðsynlegar vegna notkunar lyfsins.

Áttfalt sterka lyf olli eitrun

Í mars í fyrra fékk barn á leikskólaaldri eitrun vegna svefnlyfsins Alememazine Orifarm en lyfið er áttfalt sterkara en Vallergan sem upprunalega hafði verið notað.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Alememazine Orifarm ekki verið til frá því um mánaðamótin maí/júní.

Í stað þess hafa foreldrar og aðrir sem nota lyfið fengið leyst út lyfið Theralene sem nú hefur verið innkallað.

Lyfjaskipti foreldra á Facebook

Í gær greindi RÚV frá því að foreldrar barna væru að óska eftir og auglýsa eftir svefnlyfjum fyrir börn sín á samfélagsmiðlum.

Forstjóri Lyfjastofnunar varaði við slíkri dreifingu á lyfjum og sagði það tilefni til skoðunar í samtali við RÚV.

Yfirlæknir á barnaspítala Hringsins sagði í samtali við RÚV í dag lyfjaskipti foreldra á Facebook væru stórhættuleg og að málið væri grafalvarlegt.