„Við erum með fjár­öflun í til­efni af tuttugu ára af­mæli For­eldra­húss,“ segir Berg­lind Gunnars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri For­eldra­húss – Vímu­lausrar æsku, sem var stödd í Kringlunni að selja happ­drættis­miða til styrktar fé­lagsins þegar Frétta­blaðið náði tali af henni. Hún segir það vera sorg­lega stað­reynd að vímu­efni séu ekki á leiðinni á brott þvert á móti líti út fyrir að aukning hafi orðið á til­kynningum um neyslu ung­menna á síðustu mánuðum.


„Til þessa hefur sím­tölum frá for­eldrum barna sem eru að byrja í neyslu fækkað á sumrin en ekki núna. Við munum varla eftir öðru eins sumri í þau 33 ár sem við höfum starfað,“ sagði Berg­lind í við­tali við Frétta­blaðið fyrr í mánuðinum. Sam­tökin Vímu­laus æska hófu starf­semi sína fyrir rúm­lega þrjá­tíu árum en fyrir tuttugu árum bættist For­eldra­hús við og breikkaði starf­semina.

Einn af hverjum tíu prófað sterk efni


Ný­lega gerði For­eldra­hús könnun í sam­starfi við Maskínu þar sem vímu­efna­neysla ung­menna var rann­sökuð. Í ljós kom að um þriðjungur fólks á aldrinum 18 til 29 ára hafði reykt kanna­bis. Einnig kom í ljós að rúm­lega einn af hverjum tíu hafði prófað Am­feta­mín og Kókaín.


Berg­lind hvetur for­eldra til að kynna sér hverjar við­vörunar­bjöllurnar eru þar sem oft komi neysla ekki upp á yfir­borðið fyrr en seint. „Hvaða barn sem er getur lent í klóm fíkni­efna,“ bætir hún við. Mynstrið sé iðu­lega þannig að upp komist um neyslu ung­menna þegar skólarnir hefjast á ný, þá sé meira að gera hjá For­eldra­húsum en ella.

Hér má sjá hlutfall fólks á aldrinum 18 til 29 ára sem neytt hefur vímuefna.
Mynd/Maskína

Bjóða upp á ráð­gjöf fyrir börn og for­eldra


„Við bjóðum upp á ráð­gjöf og við­töl fyrir fjöl­skyldur sem eiga börn í vímu­efna­vanda og eru að stunda á­hættu­hegðun.“ Berg­lind segir eitt af mark­miðum sam­takanna vera að vinna jafnt með börnum og for­eldrum.


„Við erum líka með sjálfs­styrkingar­nám­skeið fyrir börn í sam­starfi við Reykja­víkur­borg, það nám­skeið byrjaði fyrir tveimur ára­tugum.“ For­eldra­hús bæti síðan stöðugt við sig nám­skeiðum og bjóði nú upp á nám­skeið fyrir for­eldra og ör­nám­skeið fyrir börn sem eru að­stand­endur fíkla.


Berg­lind bendir á að stöðugt vanti fjár­magn í þennan mála­flokk og kveðst hafa verið á­nægð með að sam­tökin hafi verið valin í ár­legan góð­gerða­dag Kringlunnar. Þá munu verndar­engla og happ­drættis­miðar vera til sölu í Kringlunni í dag á­samt því að fimm prósent af veltu verslana og veitinga­staða renna til For­eldra­húss.


„Mark­miðið er að reyna að safna fyrir eigin hús­næði,“ segir Berg­lind og bætir við að erfitt sé fyrir sam­tökin að vera á leigu­markaði. Hún hvetur alla til að leggja leið sína í Kringluna í dag og leggja starf­seminni lið. „Maður verður nú bara tví­tugur einu sinni,“ bætir Berg­lind kímin við.

Baldvina, markaðsstjóri Kringlunnar, kaupir fyrsta happdrættismiða dagsins í dag.