For­eldra­fé­lag Keldu­skóla metur það sem svo að breytingar á skóla­starfi í norðan­verðum Grafar­vogi komi ekki til með að bæta starfið heldur vinni í raun gegn hags­munum barna í skólanum en þetta kemur fram í um­sögn sem for­eldra­fé­lagið sendi frá sér í dag.

„Fyrst og fremst erum við bara á móti breytingunum eins og þær eru settar fram,“ segir Sæ­var Reykja­lín, for­maður for­eldra­fé­lags Keldu­skóla í sam­tali við Frétta­blaðið. „Við erum líka al­farið á móti því að yngstu börnin í báðum hverfum, það er að segja Víkur og Staðar­hverfi, þurfi að sækja grunn­skóla út fyrir hverfið sitt.“

Í til­lögu meiri­hluta í skóla- og frí­stunda­ráði Reykja­víkur­borgar frá því í síðasta mánuði kemur fram að tveir skólar, Borga­skóli og Engja­skóli, verði fyrir nem­endur í fyrsta til sjöunda bekk og einn skóli, Víkur­skóli, verði fyrir nem­endur á ung­linga­stigi. Þá er lagt til að skóla­hald í Keldu­skóla Korpu verði lagt af og nem­endum boðin skóla­vist í Engja­skóla.

Stefna hverfa­byggð í hættu

„Ljóst er að á­ætlanir þessar, sem meiri­hlutinn í Reykja­vík stendur fyrir, miða að því að loka Keldu­skóla Korpu sem stað­settur er í Staðar­hverfi og stefna þar með hverfa­byggð í hættu, á­samt því að um­turna um leið nú­verandi skóla­haldi í norðan­verðum Grafar­vogi með keðju­verkandi nei­kvæðum af­leiðingum fyrir um 820 börn,“ segir í um­sögn for­eldra­fé­lagsins í Keldu­skóla.

„Keldu­skóli er einn af fjórum þekkingar­skólum í Reykja­vík, þannig Reykja­víkur­borg er í raun að fækka þekkingar­skólum um einn. Þar hefur verið unnið starf sem hefur vakið at­hygli út fyrir land­steina,“ segir Sæ­var. „Það er bara verið að vega að því fag­lega og flotta starfi sem verið er að vinna í Grafar­vogi undir því yfir­skinni að það spari ein­hverja peninga.“

Breytingarnar ekki ræddar við íbúa

Að sögn Sæ­vars hafa breytingarnar ekki verið ræddar af viti við íbúa og að margir viti í raun ekki af breytingunum. „Þeir héldu einn for­eldra­fund í byrjun þessa árs, sem sagt á síðasta skóla­ári, þar sem hug­myndirnar voru reifaðar og það mætti gríðar­legri and­stöðu. Síðan þá hefur Reykja­víkur­borg ekki boðað til fundar með í­búum né for­eldrum til að kynna þessi á­form sem á í raun að á­kveða bara núna í nóvember.“

„Við óskum, í fyrsta lagi, að fá í­búa­kosningu um málið og við óskum eftir að það verði hlustað á bæði á raddir for­eldra, nem­enda og íbúa,“ segir Sæ­var en hann segir aðra val­mögu­leika vera í boði. „Við viljum bara fá að eiga sam­tal við borgina um þetta og fá að á­kveða fram­tíð hverfisins en ekki láta þröngva upp á okkur ein­hverju sem við erum ekki sátt við,“ segir Sæ­var að lokum.