Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sagði á Alþingi í dag að nú sé kominn tími til þess að hjálpa einstaklingum sem glíma með fíknisjúkdóma, í stað þess að jarða þau á biðlistum.
„Fíkn, fíknisjúkdómar, drykkjusýki. Það þekkir enginn þessi hugtök, sérstaklega þeir einstaklingar sem glíma við þennan vágest,“ sagði Inga. Hún gagnrýnir kerfið sem á að aðstoða fólk sem þarf á aðstoð að halda að sökum fíknar.
„Hverslags kerfi skyldi nú mæta þeim. Hvernig er tekið utan um þennan þjóðfélagshóp. Ég hef núna undanfarnar vikur fengið alveg í beinni útsendingu að fylgjast með þeirri þrautagöngu sem fárveikt fólk er að ganga í gegnum hér og alla þá veggi sem þeim mæta og rekast á í frábæra heilbrigðiskerfinu,“ sagði Inga kaldhæðnislega.
Ekkert annað í stöðunni en að gefast upp
Inga segir að það sé ekkert annað í stöðunni fyrir einstaklinga sem glíma við fíkn en að „detta í það“ og gefast upp.
„Þeir sem þykjast vilja aðstoða þá, þeir gera það alls ekki, engan veginn. Og bara það að núna í síðustu viku hafi verið að mæla fyrir frumvarpi, þar sem var farið þess á leit að við samþykktum lengingu á endurhæfingarlífeyri úr þrem árum í fimm. Eins og það sé ekki fullreynt eftir þrjú ár hvor þú sért í raun og ver tilbúin að stíga inn í vinnuna,“ sagði Inga.
Þá finnst Ingu það einkennilegt að þeir sem glími við fíkn þurfi að greiða úr eigin vasa fyrir allskyns úrræði, líkt og sjúkraþjálfara og sálfræðimeðferð. „Það kostar allt peninga viðurlegi forseti, en einhvern veginn eiga þeir að týna þá af trjánum,“ sagði Inga.
„Ég hef skömm á þessu samfélagi“
Inga sagði að nú væri kominn tími til þess að halda utan um fólk sem glímir við fíkniefnavanda.
„Það eru fordómar og aftur fordómar sem eru að drekkja samfélaginu hérna gagnvart fíkn og fíknisjúkdóm. Það er komin tími til þess að við förum að taka utan um þetta fólk og þennan mannauð sem það hefur að geyma og hjálpa þeim út í lífið á ný, í stað þess að jarða þau hvert á fætur öðru á biðlista eftir hjálp. Ég hef skömm á þessu samfélagi,“ sagði Inga.