Efna­hagur Þýska­lands dróst saman um rúm 10 prósent á öðrum árs­fjórðungi, þegar á­hrif heims­far­aldursins lögðust á Evrópu af fullum þunga. Þetta er mesti sam­dráttur þar í landi frá upp­hafi áttunda ára­tugarins og mun meiri en í efna­hags­hruninu 2008 þegar hann féll um tæp fimm prósent.

Rúm­lega 200 þúsund hafa smitast af CO­VID-19 í Þýska­landi og yfir 9000 látist, sam­kvæmt tölum John Hop­kins há­skóla. Sam­kvæmt sótt­varna­yfir­völdum landsins komst far­aldurinn aftur á skrið eftir að slakað var á sótt­vörnum í vor og var met slegið í fjölda ný­smits síðast­liðinn föstu­dag.

Efna­hagur Banda­ríkjanna tók enn verri dýfu en stærstu Evrópu­ríkin á um­ræddu tíma­bili en sam­kvæmt tölum sem gefnar voru út vestan­hafs í gær varð um það bil 10 prósenta efna­hags­sam­dráttur frá apríl og til júní­loka. Um versta árs­fjórðung frá upp­hafi mælinga er að ræða. At­vinnu­leysi hefur einnig náð met­hæðum en yfir 20 milljónir manna misstu vinnuna í Banda­ríkjunum eftir að far­aldurinn skall á. Slíkt at­vinnu­hrun hefur ekki orðið frá upp­hafi mælinga fyrir 80 árum.

Frá því ein­stök ríki Banda­ríkjanna fóru að slaka á sótt­vörnum fyrr í sumar hefur at­vinnu­fram­boð glæðst á ný en þó er gert ráð fyrir að at­vinnu­leysi fari ekki niður fyrir tíu prósent á næstunni og verði á­fram hærra en þegar verst lét í efna­hags­hruninu 2008.

Á mið­viku­daginn voru skráð dauðs­föll vegna CO­VID-19 komin yfir 150 þúsund í Banda­ríkjunum en þann dag voru rúm­lega 1.400 dauðsföll skráð. Helstu sér­fræðingar heil­brigðis­mála þar vara nú við því að dauðs­föll vegna far­aldursins fari í mörg­hundruð þúsund verði ekki betur við far­aldurinn ráðið í landinu.