Yfirvöld í Ástralíu segja engin fordæmi fyrir þeim fjölda skógarelda sem geisa nú í Nýja Suður-Wales. Í gær loguðu meira en 90 skógareldar í fylkinu. Þar af eru 17 eldar metnir mjög alvarlegir.

Margir eldanna geisa á þurrkasvæðum þar sem hitinn fer upp í 35 gráður. Kröftugar vindhviður sjá svo um að dreifa eldinum.

Fregnir hafa borist af fólki sem fast er á heimilum sínum á eldsvæðum. Hafa yfirvöld hvatt fólk sem er lokað inni á svæðum vegna eldanna til að byrgja sig af í stað þess að reyna að flýja, það sé of seint.

„Við höfum aldrei séð svona mikla elda á mörgum stöðum á sama tíma,“ sagði Shane Fitzsimmons, slökkviliðsstjóri á svæðinu, við fjölmiðla í gær. „Við erum að feta ótroðnar slóðir.“

Í gærmorgun geisuðu 96 eldar í fylkinu. Þá var ekki búið að ná tökum á 57 eldum og 17 voru metnir mjög alvarlegir. Frá því að byrjaði að vora í september hefur slökkvilið tekist á við mörg hundruð skógarelda í Ástralíu, flesta í Nýja Suður-Wales. Tveir létust á heimili sínu í eldunum í október. Í síðustu viku brann tvö þúsund hektara griðasvæði fyrir kóalabirni, er óttast að mörg hundruð þeirra hafi orðið eldinum að bráð.