Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir áætlanir bæjaryfirvalda í Garðabæ um uppbyggingu búsetukjarna fyrir fatlað fólk ekki vera í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp, sem vinna að réttinda- og hagsmunabaráttu fatlaðs fólks, kvarta undan samráðsleysi við væntanlega íbúa og furða sig á því að fyrirhugað sé að setja marga búsetukjarna í sama hverfið.

Beri skylda að hafa samráð

„Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna á fólk að hafa val um það hvar það býr og með hverjum. Þó þú sért fatlaður þá hafa ekki allir fatlaðir sömu þarfir svo það þarf auðvitað að skoða hópinn sem á að flytja inn í þetta húsnæði og hanna það í samræmi við þarfir þeirra,“ segir Bryndís í samtali við Fréttablaðið.

Einnig sé mjög mikilvægt að dreifa búsetukjörnum um hverfi bæjarins.

„Ásýndin á alltaf að vera sú að þetta sé bara almennt íbúðahverfi og almennar íbúðir sem fólk býr í og hafi ekki einhvers konar einkenni stofnanna eins og vill verða þegar menn setja allt saman.“

Bryndís segir sveitarfélagið bera þá skyldu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk og áðurnefndum samningi SÞ að samráð sé haft við fólkið sem eigi að búa í búsetukjörnunum og hagsmunasamtök þeirra. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn árið 2007 og samþykkti Alþingi árið 2016 að fullgilda hann.

Bæjaryfirvöld áður fengið kynningu hjá samtökunum

„Það hefur ekki verið haft samráð við okkur og alvarlegast er að það sé ekki haft samráð við fólkið sem á að búa þarna til að kanna hvernig það vill búa, hvernig húsnæði hentar þeim og hvar í bænum þau vilja búa. Af því það er óheimilt að gera fólki að búa í tilteknu húsnæði sem er hannað fyrir fatlað fólk, það á að geta haft val um það.“

Að hennar sögn hefur ekki heldur verið leitað til Áss styrktarfélags sem var bæjaryfirvöldum til ráðgjafar við byggingu annars íbúðakjarna á síðasta ári. Nú sé stefnt að því að nota sömu teikningu og síðast án þess að taka sérstaklega mið af þörfum væntanlegra íbúa.

Bryndís segir að Þroskahjálp hafi kynnt hugmyndafræði sína sem byggist á alþjóðlegum mannréttindasamningum fyrir fjölskylduráði Garðabæjar síðasta haust.

„Svo ég furða mig á því að þau hafi ekki tekið meira til sín þá ráðgjöf sem við vorum með þar en þá voru þessir ákveðnu kjarnar ekki sérstaklega til umræðu.“

Steinsteypa standi í áratugi

Hún segir samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks kveða sérstaklega á um afstofnanavæðingu sem feli meðal annars í sér að slíkir búsetukjarnar séu með sem fæstum íbúðum.

Bryndís tekur fram að Þroskahjálp fagni því að Garðabær fari í þessa þörfu uppbygginu enda mikil þörf á. Þar þurfi þó að vanda vel til verka.

„Steinsteypa stendur í áratugi og verður ekki tekin til baka svo það skiptir mjög miklu máli að gera þetta eins vel og hægt er.“

Fréttin hefur verið uppfærð.