Halldór Auðar Svansson, tölvunarfræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, fordæmir skrif sem birtust á Facebook-síðu Miðflokksins í Mosfellsbæ í síðustu viku þar sem því er haldið fram að Bára Halldórsdóttir hafi af pólitískum andstæðingum „verið látin hlera“ þingmenn Miðflokksins í samtali þeirra á barnum Klaustri seint á síðasta ári.

Í færslunni, sem birt var síðasta miðvikudag en Halldór gerir að umfjöllunarefni í dag, segir að það sorglega við Klaustursmálið allt saman sé að „þarna úti eru aðilar sem völdu einstakling í verkið [að taka upp samtal þingmannanna á Klaustri] með veika félagslega stöðu“.

„Þetta svipar til þess þegar fjárglæframenn létu róna skrifa upp á víxla og seldu svo. Sorglegt svona vinnulag,“ segir ennfremur í færslunni en með henni fylgir hlekkur á frétt um úrskurð Persónuverndar sem komst að þeirri niðurstöðu að Bára hafi gerst brotleg með upptökunni á Klaustri.

Í niðurstöðunni segir hins vegar að engin merki séu um að hún hafi átt sér samverkamann, líkt og Miðflokksmenn höfðu leitt líkur að, og því bæri henni ekki að greiða sekt. Myndefninu skyldi hins vegar eytt.

Halldór Auðar segir Miðflokksmenn, í þessu tilfelli í Mosfellsbæ, dylgja um að Bára sé bara einhver „leiksoppur, í svipaðri stöðu og róni“. Hann fordæmir ummælin og segir þau til marks um viðhorf Miðflokksins til öryrkja. Margar séu áskoranir þeirra en en skortur á frjálsum vilja og getu til að hafa áhrif á stjórnmál sé ekki ein þeirra.

„Það er kannski það sem Miðflokksmönnum svíður mest, að geta ekki horfst í augu við að þeir voru 'nappaðir' af svona 'aumingja' og verða því að búa sér það til að það hljóti að hafa verið önnur öfl að baki. Það segir bara meira um þeirra fordóma og sjálfsupphafningu en um nokkuð annað,“ skrifar Halldór að lokum.