„Ég man ekki eftir að fyrirtæki gangi fram með viðlíka hætti og Ísam gerir þar sem hækkunum er hótað í miðri atkvæðagreiðslu um kjarasamninga,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við Fréttablaðið.

Ísam hefur boðað verðhækkanir á öllum innfluttum vörum og vörum fyrirtækja í eigu félagsins, verði kjarasamningar samþykktir. Fréttablaðið greindi frá þessu í gær.

Boðaðar eru 3,9% verðhækkanir hjá Kexsmiðjunni, Kexverksmiðjunni Frón og Ora. Myllan hefur boðað 2,7% verðhækkun á öllum framleiðsluvörum. Þá hefur Ísam boðað 1,9% hækkun á allar innfluttar vörur, en þær eru ótalmargar. Þessi fyrirtæki eru öll í eigu Ísam.

Ragnar Þór segir ljóst að yfirlýsingar af þessu tagi séu ekki til þess fallnar að vekja bjartsýni um að kjarasamningar haldi þegar kemur að forsenduákvæðum um að vextir lækki og að kaupmáttur launa verði tryggður. „Venjulega hafa fyrirtækin hækkað eftir að kjarasamningar eru samþykktir og þá oft langt umfram það sem tilefni er til. Þess vegna erum við með forsenduákvæðin í okkar samningum. Ef fyrirtækin ætla að feta sömu braut og þau hafa gert með hækkunum á vöru og þjónustu munu samningar einfaldlega ekki halda og við munum sækja þær kjarabætur sem við gáfum eftir til að ná niður vöxtum af mikilli hörku, ef forsendur bresta.“

Ragnar segir að hann telji hótanir sem þessar ekki vera góða auglýsingu fyrir fyrirtæki sem selur þekkt vörumerki til neytenda og vísar til viðbragða almennings á samfélagsmiðlum vegna fréttarinnar. Í stuttu máli má segja að boðaðar hækkanir Ísam falli þar afar illa í kramið. „Fyrirtækjunum væri nær að halda að sér og taka þátt í þessari vegferð með okkur í að halda verðbólgu og verðlagi niðri og ná þannig niður vöxtum. Mér sýnist á rekstrartölum Ísam að það væri gæfulegri vegferð heldur en sú sem hótað er að fara í.“