Sigurður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra, for­dæmdi í gær á­ætlanir Reykja­víkur­borgar um að leggja veg í gegnum friðað flug­skýli í Skerja­firði. Sjálfur var Sigurður odd­viti Hruna­manna­hrepps þegar sveitar­fé­lagið tók á­kvörðun um að taka jörðina Reykja­bakka eignar­námi til að geta lagt veg­tengingar við hana. Sú á­kvörðun var síðar ó­gilduð með dómi Hæsta­réttar árið 2012.

For­stjóri Flug­fé­lagsins Ernis greindi frá því í kvöld­fréttum Stöðvar 2 á fimmtudag að Reykja­víkur­borg hefði til­kynnt sér að það ætti að rífa við­halds­stöð fé­lagsins á Reykja­víkur­flug­velli bóta­laust vegna nýs skipu­lags. Þar á að taka hluta flug­vallarins undir nýtt í­búða­hverfi í Skerja­firði og stendur einnig til að reisa brú yfir Foss­vog.

Engin sómakær sveitarfélög

Sigurður Ingi tjáði sig um þessar fyrir­ætlanir Reykja­víkur­borgar á Face­book í gær og sagði þær ekki koma til greina. „Reykja­víkur­borg skrifaði fyrir nokkrum árum undir sam­komu­lag við ríkið um skipu­lag og upp­byggingu á landi ríkisins við Skerja­fjörð. Það kemur ekki annað til greina en að borgin virði það sam­komu­lag,“ segir ráð­herrann.

Hann segir fyrir­hugaðar vega­fram­kvæmdir borgarinnar innan flug­vallar­girðingarinnar og að þær verði aldrei án sam­þykkis Isavia. „Á­form um að leggja veg í gegnum friðað hús eru frá­leit og engin sóma­kær sveitar­fé­lög taka heldur eignir bóta­laust af í­búum sínum. Allra síst aðilum sem hafa þjónað sjúkra­flugi og líf­færa­flutningum fyrir lands­menn í ára­tugi. Þannig hagar sér enginn,“ segir Sigurður.

Reykjavíkurborg skrifaði fyrir nokkrum árum undir samkomulag við ríkið um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við...

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Friday, June 5, 2020

Hann var þó sjálfur odd­viti sveitar­fé­lagsins Hruna­manna­hrepps og sat í hrepps­nefnd þess þegar á­kvörðun var tekin var tekin árið 2008 um að gera jörðina Reykja­bakka á Flúðum, sem var í eigu íbúa sveitar­fé­lagsins, upp­tæka svo hægt væri að ráðast í vega­fram­kvæmdir við heim­reið hennar.

Á­kvörðunin var tekin 5. nóvember árið 2008 á grund­velli um­sagnar Skipu­lags­stofnunar en þar kom fram að stofnunin gerði ekki at­huga­semd við fyrir­hugað eignar­nám. Í kjöl­far at­huga­semda þess sem átti jörðina aftur­kallaði stofnunin þó um­sögn sína þann 5. desember 2008, þar sem hún taldi ljóst að fyrir­hugaðar veg­tengingar sveitar­fé­lagsins væru utan marka deili­skipu­lags. Á­kvað sveitar­fé­lagið þá að taka að­eins það svæði Reykja­bakka eignar­námi sem væri innan marka deili­skipu­lagsins.

Eig­anda jarðarinnar var til­kynnt um þetta með bréfi 2. mars 2009, tæpum tveimur mánuðum áður en Sigurður Ingi lét af em­bætti sínu sem odd­viti Hruna­manna­hrepps til að taka sæti á þingi í lok apríl sama árs.

Eig­andinn höfðaði mál geng sveitar­fé­laginu í lok árs 2011 þegar nýr odd­viti var tekinn við og dæmdi Héraðs­dómur Suður­lands eig­andanum í vil í febrúar 2012. Hruna­manna­hreppur á­frýjaði þeim dómi til Hæsta­réttar, sem stað­festi dóm héraðs­dóms um að á­kvörðun hrepps­nefndarinnar um að taka landið eignar­námi yrði ó­gilduð.