Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu telur að hátt hrávöruverð muni vara fram á vor. Verkefnisstjóri ASÍ segir hrávöruverð oft ekki stóran hluta af því endanlega.

Hækkanir á ýmiss konar vöru og þjónustu hafa verið mjög áberandi í umræðunni síðustu daga.

„Allir eru sammála um að svona miklar hækkanir hafa ekki sést nema kannski á stríðstímum. Þetta eru mjög skrítnir tímar,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Að sögn Andrésar hafa frá því seint á síðasta ári orðið fordæmalausar hækkanir á allri hrávöru, til matvælaframleiðslu eða iðnaðarframleiðslu. Því til viðbótar séu hækkanir á flutningskostnaði einnig miklar.

Hann segir allt viðskiptaumhverfið og almenning þar með talinn finna fyrir áhrifum hækkananna. „Þetta hefur óhjákvæmilega áhrif inn í allt efnahagslífið, með tilheyrandi áhrifum á heimili í landinu.“ Andrés segir að samkvæmt Alþjóðabankanum og öðrum greiningar­aðilum muni ástandið líklega versna áður en það batnar. Ástandið muni vara fram á vor.

Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir ástæðu til að hafa áhyggjur af því að verðbólga sé töluð upp. Umræða um verðhækkanir á hrávöru geti leitt til verðbólgu og virkað sem stýrandi spádómur. Slík umræða geti grafið undan peningastefnunni.

„Nauðsynlegt er að hafa í huga að hækkun á hrávöruverði á ekki að leiða sjálfkrafa til verðhækkana á vöru og þjónustu,“ segir hún. Oft sé um tímabundnar sveiflur að ræða og hrávöruverð sé ekki stór hluti af endanlegu verði. Innlend verslun hafi komið vel út úr faraldrinum.