Leiðtogar G7 ríkjanna, Evrópusambandsins og NATO hittast í fyrsta sinn á neyðarfundi í Brussel í Belgíu frá því að innrás Rússlands inn í Úkraínu hófst.

Mikil spenna ríkir í borginni sem er að fyllast af heimsleiðtogum, fyldarliði þeirra og lögreglu. Aðstoðarmenn allra helstu leiðtoga hafa verið á haus að bóka svítur og gistihús og tryggja öryggi leiðtoganna enda var fundurinn bókaður með litlum fyrirvara.

Íbúar í Brussel hafa orðið varir við mikla aukningu á lögreglusveitum á götum borgarinnar. Búið er að setja upp tálma víða um alla borgina og loka Arts-Loi lestarstöðinni. Ljóst er að samkoman muni lama borgina að einhverju leyti, sérstaklega þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti mætir með sínu fylgdarliði.

Að sögn Reuters mun Biden ræða við aðra leiðtoga um áhyggjur sínar um stöðu Kína gagnvart Rússlandi. Hann vill komast að niðurstöðu um sameiginleg viðbrögð ef Kínverjar ákveða að veita Rússum aðstoð.

Katrín á leiðinni til Brussel

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði af stað í dag til Belgíu og lendir í kvöld. Hún hittir aðra leiðtoga aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins á morgun til að fara yfir stöðuna og ræða stuðning við Úkraínu.

15. mars: Katrín á fundi þátttökuríkja í sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF) í London.
Fréttablaðið/Getty images

Vlodimír Selenskíj, forseti Úkraínu mun flytja ávarp í gegnum fjarfundarbúnað á morgun, 24. mars.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, setti tóninn fyrir fundinn í ávarpi í dag í höfuðstöðvunum í Brussel.

Þar sendi hann skilaboð til Rússlands um að enginn sé sigurvegari í kjarnorkustríði. Aðilar sem eru tengdir Kreml hafa talað opinskátt um þann möguleika að beita gereyðingarvopnum telji þeir landinu ógnað.

„NATO mun ekki senda herlið inn í Úkraínu. Við verðum að koma í veg fyrir að þetta verði stríð milli Rússlands og NATO,“ sagði Stoltenberg í samtali við fjölmiðla að loknu ávarpi sínu. NATO mun heldur ekki banna flugumferð í Úkraínu en Stoltenberg segir að það gæti einungis aukið spennuna sem NATO vill minnka.

Bandalagið mun þó styrkja verulega stöðu sína í nágrannaríkjum Úkraínu og veita Úkraínu aukinn stuðning og herbúnað til að verja sig gegn alvarlegum árásum með efnavopnum, sýklavopnum, geislavopnum og kjarnorkuvopnum.

Leiðtogar G7 ríkja hittast

Leiðtogar G7 ríkja munu einnig funda í Brussel um stríðið. Um er að ræða leiðtoga Bandaríkjanna, Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Japan. Neyðarfundir G7 eru ekki algengir og þá sérstaklega ekki á sama tíma og leiðtogar NATO og Evrópusambands funda. Þetta er því fordæmislaus samkoma þjóðarleiðtoga á einum stað.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, mætti til Brussel í dag og Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lendir í kvöld.

Joe Biden lendir í kvöld ásamt miklu fylgdarliði.
Fréttablaðið/Getty images