Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 17. apríl 2021
08.00 GMT

Halldór Kristmannsson segist ekki hafa séð sér annað fært en að svara nýjasta útspili fyrrum yfirmanns síns sem hafi lekið viðkvæmum heilsufarsupplýsingum um sig, sem birtust á vefmiðlinum Kjarnanum fyrir helgi.

Auk upplýsinga um heilsufar Halldórs, sem tók sér veikindaleyfi frá störfum sínum sem framkvæmdastjóri Alvogen og Alvotech undir lok síðasta árs, birtust í Kjarnanum, það sem Halldór kallar, vel valdir kaflar úr tölvupóstsamskiptum Halldórs við Róbert og Árna Harðarson, aðstoðarforstjóra fyrirtækisins.

Þau tölvupóstsamskipti varða breskan blaðamann sem fór að grennslast fyrir um stjórnarhætti Róberts og hafði samkvæmt Halldóri rætt við fyrrum starfsmenn fyrirtækjanna. Í tölvupóstsamskiptum kemur fram að starfsmannastjóri fyrirtækisins hafi talið að blaðamaðurinn hafi meðal annars rætt við kvenkyns stjórnanda innan Alvogen í Bandaríkjunum, sem bar forstjórann þungum sökum.

Segir Halldór að umræddur stjórnandi hafi stigið fram í desember 2019, þá sem háttsettur stjórnandi fyrirtækisins í Bandaríkjunum, og sakað Róbert Wessman um ósæmilega og ógnandi hegðun gagnvart sér.

„Í árslok 2019 steig þessi stjórnandi fram eftir að hafa verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Hún skilgreindi sig sem uppljóstrara eins og ég er og setti fram háar fjárkröfur á hendur fyrirtækinu. Stjórnandinn hafði uppi ásakanir á hendur Róberti, sem sendar voru til hans bréfleiðis og einnig til Árna Harðarsonar aðstoðarforstjóra, starfsmannastjóra fyrirtækisins og forstjóra þess í Bandaríkjunum.

Þetta hefur auðvitað aldrei komið fram og þetta er það sem Lukas er raunverulega að spyrja um,“ segir Halldór, og á þá við Lukas Mikeli­onis, breska blaðamanninn sem Halldór segir hafa haft samband við sig í október 2020.

„Blaðamaðurinn taldi sig hafa upplýsingar um ósæmilega hegðun Róberts gagnvart samstarfsmönnum sínum og að fjölmargar sættir hafi verið gerðar til að forðast dómsmál.“

„Það þótti mikilvægt á þessum tíma að fyrirtækið sjálft gerði ekki slíka sátt og var lausn málsins því falin tryggingafyrirtæki Alvogen í Bandaríkjunum. Þetta er í ársbyrjun 2020 að sáttin er gerð, það er ekki lengra síðan,“ segir Halldór og bendir á að ásakanir stjórnandans séu ekki ósvipaðar þeim sem hann sjálfur hafi stigið fram með.

„Ég hef lagt fram ábendingar mínar í góðri trú og get ekki sagt til um hvort umræddar ásakanir hafi verið réttmætar, heldur einungis staðfest að þær voru lagðar fram og unnið var að úrlausn málsins sem lauk með sátt.“

Í varnarhlutverki frá byrjun

Ósættið milli Halldórs og Róberts hefur ratað í fjölmiðla undanfarið en upphafið má rekja til þess að Halldór skrifaði stjórnum fyrirtækjanna Alvogen og Alvotech, sem Róbert veitir forstöðu og á stóran eignarhlut í, ítarleg bréf í upphafi árs. Hann skorar þar á stjórnirnar að taka starfshætti forstjórans til skoðunar og lætur fylgja með ítarlegar frásagnir, meðal annars um ofbeldi, líflátshótanir og alvarlegar ásakanir á hendur óvildarmönnum Róberts.

„Ég stíg þarna fram í janúar með ítarlegt bréf til bæði stjórnar Alvogen og Alvotech sem útlistar ítarlega þau mál sem ég tel að stjórnirnar eigi að skoða varðandi ósæmilega hegðun Róberts, en líka varðandi ýmis önnur mál sem ég er bundinn trúnaði um og tengjast rekstri fyrirtækjanna,“ segir Halldór og ítrekar að hann hafi enga fjárkröfu gert á fyrirtækin og alltaf viljað að málið yrði leyst utan fjölmiðla.

„En svo lendi ég í þessu varnarhlutverki alveg frá byrjun þegar Róbert ákveður sjálfur að leka þessu til fjölmiðla.“

Í framhaldi af því að nafni Halldórs var lekið til fjölmiðla var honum birt stefna, ásamt uppsagnarbréfi, fyrir utan World Class í Smáralind þar sem hann var að koma af æfingu .

„Ég hefði talið heppilegra að menn myndu setjast niður og ná sáttum á annan hátt, en hann opnar þetta í fjölmiðlum og fyrir héraðsdómi þar sem stefnan verður tekin fyrir í maí.

Ég mun þurfa að verja mig í því og þá geri ég ráð fyrir því að allar ásakanir sem ég hef lagt fram gegn Róberti og er bundinn trúnaði um, komi fram. Það er mjög mikið ósagt í þessu máli,“ segir Halldór og bætir við að hann sé sakaður um að brjóta trúnað gegn félaginu en hann hafi frekar verið nauðbeygður til að verja sig í fjölmiðlum.

„Síðasta útspil þeirra í þeim efnum er að leka í Kjarnann þessum tölvupóstum og vísa í veikindavottorð og heilsufarsupplýsingar, sem ég lagði fram í desember. Þar er það gert ótrúverðugt að ég hafi ekki gefið skýringar á veikindaleyfinu. Það er alrangt.“


Líkaminn brást illa við


Halldór segir síðasta ár hafa reynt á hann heilsufarslega en fram að því hafi hann alltaf verið heilsuhraustur og varla tekið sér veikindafrí frá störfum í tuttugu ár.

„Ég þurfti í þrígang að leita til bráðamóttöku vegna öndunar­örðugleika og svo eitt kvöldið þegar ég stend upp frá kvöldverðarborðinu, þar sem ég sat ásamt fjölskyldunni, líður yfir mig og ég dett aftur fyrir mig á steingólfið og brýt sprungu á höfuðkúpuna.“


„Síðasta útspil þeirra í þeim efnum er að leka í Kjarnann þessum tölvupóstum og vísa í veikindavottorð og heilsufarsupplýsingar, sem ég lagði fram í desember."


Halldór var sóttur af sjúkrabíl á heimili sitt og lá á sjúkrahúsi í vikutíma.

„Sem betur fer jafnaði ég mig af þessu. Þetta var þó ekki eina skiptið sem ég þurfti að leita til Landspítalans en skiptin voru tvö önnur. Það má segja að árið hafi verið erfitt heilsufarslega séð og ljóst að mikil streita og álag á þessum tíma hafði sitt að segja. Líkaminn var að bregðast við og segja mér að ég gæti ekki meira.“

Aðspurður hvers vegna álagið hafi aukist svo árið 2020 svarar Halldór að vaxandi ósætti milli hans og Róberts hafi haft þessi áhrif. „Við höfðum unnið náið saman frá árinu 2001. Þá var hann forstjóri Delta og ég var einn af 150 umsækjendum sem sóttu um starf sem aðstoðarmaður hans og var ráðinn. Ég hef nánast unnið fyrir hann alla tíð síðan.“

Stýrði ímyndarmálum Róberts


Halldór tók fljótlega við sem framkvæmdastjóri hjá Actavis og starfaði síðar bæði hjá Alvogen og Alvotech. „Allan þennan tíma stýri ég ímyndarmálum Róberts og hvernig ímynd hans og vörumerki fyrirtækjanna eru byggð upp.

Hvernig innri markaðssetningin er á honum sjálfum og fyrirtækinu og hvernig fyrirtækjamenningin í heild sinni er byggð upp. Ég sá einnig um að byggja upp hans ímynd gagnvart fjárfestum og fjölmiðlum erlendis.

Ég hef því systematískt búið til ákveðna ímynd af honum sem mér fannst ákjósanleg og ég tel að sé sterkt að hann endurspegli. Því verður það mjög sárt þegar ég þarf að horfast í augu við að sú ímynd sem ég byggði upp var ekki í takt við raunveruleikann.“

Halldór segist hafa horft á eftir mjög mörgum samstarfsfélögum verða fyrir barðinu á Róberti og vera bolað út úr fyrirtækinu.

„Ég fell einhvern veginn inn í þetta mynstur og verð talsvert meðvirkur, enda sneri þetta aldrei að mér. Það hafði aldrei borið skugga á okkar samstarf, aldrei neinn ágreiningur varðandi mín störf eða þau verkefni sem ég sinnti. En allt frá árinu 2018 hefur ágreiningur okkar þegar kemur að hans persónulegu málum og óvildarmönnum verið mjög alvarlegur og vaxandi.

Hann beitti mig miklum þrýstingi að koma höggi á óvildarmenn sína sem eru allnokkrir. Þótt ég hafi aðeins tilgreint nokkra og nefndi til dæmis tvo háttsetta embættismenn, alþjóðlegan fjárfesti og íslenskan blaðamann og nöfn þeirra flestra hafa verið gerð opinber. Hann vildi meðal annars að ég beitti mér gegn þeim í gegnum fjölmiðil sem hann átti, Mannlíf og einnig í gegnum aðra fjölmiðla, bæði hér heima og erlendis.“


„Hann vildi meðal annars að ég beitti mér gegn þeim í gegnum fjölmiðil sem hann átti, Mannlíf og einnig í gegnum aðra fjölmiðla, bæði hér heima og erlendis.“


Halldór segist hafa verið beittur miklum þrýstingi og í fyrsta sinn upplifað framkomu sem hann hafði séð yfirmann sinn beita gagnvart öðrum samstarfsmönnum.

„Enginn hafði unnið með honum eins lengi og ég, ekki einu sinni nálægt því."

„Ég ákvað að ef það kæmi einhvern tíma að mér, sem ég hélt að myndi aldrei gerast, ég hélt ég væri bara það mikilvægur fyrirtækinu, þá myndi ég ekki bakka og láta valta yfir mig.“


Samviskan nagaði


Halldór segir frá harkalegu rifrildi á milli hans og Róberts í september á síðasta ári en þá hafði ósætti þeirra á milli farið vaxandi í tvö ár.

„Árið 2020 hafði verið tíðindamikið hvað varðar þrýsting á mig varðandi hans persónulegu mál. Þá kom að því að ég varð bara að gera upp við mig hvort ég vildi standa í lappirnar og standa vörð um ákveðin grunngildi sem mér finnst mikilvæg.

Hann hafði uppi ákveðnar hótanir gagnvart mér, sem snéru meðal annars að mínum verkefnum innan fyrirtækjanna. Ég skoraði á hann í þrígang á fundi okkar að segja mér einfaldlega upp störfum ef hann væri ósáttur. Hann ákvað að gera það ekki og vildi hafa mig áfram í starfi.

Tveimur dögum seinna tókust tímabundnar sættir fyrir tilstilli Árna Harðarsonar lögmanns og aðstoðarforstjóra. Við höldum áfram en það var því miður óskhyggja að þessi ágreiningur myndi hverfa.

Þann 16. desember 2020 fer ég í læknisskoðun og fæ þá ráðleggingu frá mínum heimilislækni að ég verði að taka mér leyfi frá störfum. Ég legg inn vottorð hjá fyrirtækinu um ótímabundið leyfi, sem skuli endurskoðað að þremur mánuðum liðnum.

Á þessum tíma upplifi ég að líkaminn er hreinlega að gefast upp og mín grunngildi og samviska voru farin að naga mig. Ég hefði auðvitað getað gert það sem margir kollegar mínir hafa gert í gegnum tíðina, að kasta inn handklæðinu og þiggja starfslokasamning.
En mér fannst ég bara eiga svo mikið í uppbyggingunni á þessum fyrirtækjum síðustu tólf árin og vildi því vera áfram.


Á þessum tíma upplifi ég að líkaminn er hreinlega að gefast upp og mín grunngildi og samviska voru farin að naga mig.


Halldór ákveður þá að stíga fram fyrir stjórnir fyrirtækjanna og lýsir hegðun Róberts gagnvart starfsfólki og bendir á ýmis atriði varðandi starfshætti forstjórans.

„Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun og segi frá því hvernig hann hafi beitt starfsfólk ofbeldi og hótað því lífláti undir áhrifum áfengis. Í sínu starfi sem forstjóri beitti hann sér fyrir því að koma höggi á sína óvildarmenn, með einstaklega ósvífnum og andstyggilegum ásökunum.“

Horfðu fram hjá morðhótunum


Halldór segir stjórnir fyrirtækjanna hafa litið fram hjá mikilvægum atriðum.

„Tvær líkamsárásir, gagnvart mér í vitna viðurvist og önnur gegn háttsettum stjórnanda á hóteli í Austurríki fyrir framan um þrjátíu vitni. Ástæðan fyrir því að ég flagga þessu er að stjórn Alvogen er sú sama og hún var árið 2016. Hún horfði fram hjá morðhótunum Róberts þá og heldur áfram að horfa fram hjá hegðun forstjórans.

Svo fá þeir óháða lögmannsstofu til að rannsaka kvartanir mínar, lögmannsstofu sem hefur reglulega verið ráðin í slökkvistörf innan fyrirtækisins, White & Case. Hún er engan veginn óháð og ég var til dæmis í sambandi við lögmann þeirra þegar breskur blaðamaður var að grennslast fyrir um Róbert og hann skrifaði yfirlýsingu til að verjast þessum blaðamanni.


„Svo fá þeir óháða lögmannsstofu til að rannsaka kvartanir mínar, lögmannsstofu sem hefur reglulega verið ráðin í slökkvistörf innan fyrirtækisins, White & Case."


Síðan eru þeir settir í þá stöðu að vera bæði ákærendur og dómarar í mínu máli. En ég er fullviss um að það var aldrei gerð nein einasta skýrsla og hefur í raun aldrei verið gerð nein óháð rannsókn.

Skýrslan er ekki til og hefur aldrei verið birt en þeir hafa lekið bútum úr sex klukkustunda viðtali þeirra við mig sem var allt tekið upp og ég hef hvatt þá til að birta viðtalið í heild sinni. Ég hef ekkert að fela þar og ég vona að á einhverjum tímapunkti verði þetta allt gert opinbert.

Hvítþvottur og uppsögn


Bréfi mínu er svarað með hvítþvotti og síðar uppsögn svo ég tel mig hafa upplifað fordæmalausa hörku í þessu máli. Ég er í veikindaleyfi eftir miklar skylmingar við forstjórann. Þeim lá svo mikið á að stefnan var bæði send heim til mín, auk þess sem setið var fyrir mér fyrir utan líkamsræktarstöð.


„Þeim lá svo mikið á að stefnan var bæði send heim til mín, auk þess sem setið var fyrir mér fyrir utan líkamsræktarstöð."


Ég hafði boðið sátt í tveimur tilvikum og í hvorugt skiptið gerði ég nokkrar fjárkröfur á fyrirtækið. Ég vil snúa aftur í mitt starf og tel að Róbert eigi að axla ábyrgð. Enn sem komið er, virðist sem hvorki Róbert né stjórnarmenn fyrirtækjanna séu tilbúnir að horfast í augu við stöðuna.

Ég vil ekki segja til um hvernig Róbert eigi að axla þessa ábyrgð, mér finnst að stjórnir fyrirtækjanna eigi að leggja mat á það. En auðvitað liggur fyrir að forstjóri sem verður uppvís að svona hegðun og framkomu gagnvart sínu nánasta samstarfsfólki er ekki æskilegur í forystuhlutverk. Trúverðugleiki stjórnenda getur skipt sköpum gagnvart samstarfsaðilum og fjárfestum sem leggja til fjármagn.

Hjá Alvogen ráða tveir alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir yfir um 70 prósentum hlutafjár og þessir sjóðir njóta virðingar erlendis. Ég hef ekki ennþá áttað mig á því hvers vegna þessir fjárfestar taka ekki ábyrga afstöðu í þessu máli en stefna framtíðartækifærum fyrirtækjanna í hættu með sínu aðgerðaleysi.

Þá sérstaklega í ljósi þess að Róbert hefur nú þegar viðurkennt og beðist afsökunar á morðhótunum, fjölmiðlar hafa rætt við vitni að líkamsárásum og opinberir aðilar hafa nú þegar tjáð sig um rógburð gagnvart óvildarmönnum sínum.

Enginn trúnaður um líkamsárásir

Svo er ég hluthafi og einn stofnenda fyrirtækjanna og hef starfað frá byrjun að uppbyggingu þeirra svo mér þykir gríðarlega vænt um þau og hef mikilla hagsmuna að gæta.

Fyrirtækið hefur engu svarað en í sínum svörum hefur Róbert bæði sagt mig gera fjárkröfur á fyrirtækin, sem er ekki rétt og borið fyrir sig trúnað. En það er enginn trúnaður sem gildir um morðhótanir og líkamsárásir að mér vitandi, né heldur rógburðarherferðir gegn óvildarmönnum. Þetta hefur ekkert með rekstur þessara fyrirtækja að gera og í raun óverjandi að Róbert svari ekki þessum ásökunum málefnalega.“

Halldór nefnir siðareglur og gildi, sem móti fyrirtækjamenningu Alvogen og Alvotech. „Það er mikið lagt upp úr trausti og virðingu á milli fólks og við höfum búið til öruggt starfsumhverfi þar sem við viljum að fólki líði vel og að það búi við öryggi. Þessi gildi fyrirtækisins og siðareglur virðast hins vegar ekki ná yfir forstjórann. Stjórnarmönnum fyrirtækjanna virðist hreinlega vera ofviða að takast á við eins stóran hluthafa og Róbert og hann virðist hafa sterk tök á þeim.“

Réði öryggisvörð við heimilið


Halldór einbeitir sér nú að því að ná fyrri kröftum en viðurkennir að deilan taki vissulega á.
„Ég hef alltaf verið heilsuhraustur og varla farið í veikindaleyfi í þessi 20 ár. Ég tel mig vera að verja mín grunngildi og prinsipp í lífinu og ekki síst standa með þeim sem brotið hefur verið á í fortíðinni. Mínum kollegum sem ekki hafa haft hugrekki til að standa uppi í hárinu á Róberti.

Það er ekki auðvelt að skylmast við einhvern eins og Róbert, hann hefur sýnt það með líkamsárásum og alvarlegum morðhótunum að hann getur verið hættulegur maður. Þegar ég sendi bréf til stjórna fyrirtækjanna í janúar var mér bæði létt, en verð þó að viðurkenna að ákveðin hræðsla hafi gripið um sig á heimilinu.

Til að tryggja að öllum á heimilinu liði vel og hefðu engar áhyggjur af mínum skylmingum við Róbert, þá réð ég öryggisvörð fyrir utan heimili okkar í þrjár vikur. Hann stóð vaktina fyrir utan húsið frá því krakkarnir komu heim úr skóla og fram á nótt. Ég fann að fjölskyldunni leið betur og það var fyrir mestu.


„Til að tryggja að öllum á heimilinu liði vel og hefðu engar áhyggjur af mínum skylmingum við Róbert, þá réð ég öryggisvörð fyrir utan heimili okkar í þrjár vikur."


Þrátt fyrir það stend ég keikur og ætla að halda áfram mínu máli, svo sjáum við bara hvernig það fer. Ég vil áfram leita sátta og hef satt að segja lítinn áhuga á að reka málið í dómsölum næstu árin. En ég verð eðlilega að verja mig og þá legg ég fram öll þau gögn sem ég hef kynnt fyrir stjórnum fyrirtækjanna.

Ég er gjarnan spurður að því heima af hverju pabbi sé svona mikið í fréttunum og ég hef reynt að vera hreinskilinn og heiðarlegur við krakkana. Einfaldlega sagt þeim að pabbi þeirra sé að standa með sjálfum sér og þau muni hugsanlega þurfa að gera það síðar. Þá standi maður í lappirnar og sýni yfirvegun og auðmýkt,“ segir Halldór að lokum.

Kjaftshögg í París


Halldór segir Róbert hafa kýlt sig kaldan í París á CphI Worldwide lyfjasýningu sem haldin er árlega.

„Um 50 starfsmenn Alvogen og Alvotech voru viðstaddir sýninguna og hittu samstarfs­aðila og viðskiptavini. Á hótelinu safnaðist fólk saman í mat og drykk eftir árangursríka sýningu og fagnaði. Upp úr miðnætti á hótelbarnum réðst Róbert að mér með hnefahöggi án ástæðu og fyrirvaralaust.

Halldór segir RW hafa skýrt umrætt atvik með því að hann hafi verið í kýlingaleik og að þetta hafi í raun verið grín. Halldór segist ekki hafa fallist á þá útskýringu forstjórans og segist almennt ekki kannast við að forstjórar standi fyrir kýlingaleikjum við samstarfsmenn.

Vitni sem Fréttablaðið hefur rætt við staðfestir þessa frásögn Halldórs.


Löðrungur á hótelbar


Það var svo í Austurríki á árlegri stjórnendaráðstefnu Alvogen og Alvotech að Róbert á að hafa slegið háttsettan stjórnanda fyrirtækisins í andlitið fyrirvaralaust.

„Um 85 starfsmenn fyrirtækjanna voru samankomnir til að ræða markmið og áherslur komandi árs og hópurinn hittist í kvöldverði og um 30 starfsmenn voru svo á hótelbarnum eftir miðnætti þegar Róbert birtist skyndilega og hafði verið á hótelherbergi sínu.“

Samkvæmt lýsingu Halldórs virtist Róbert mjög ölvaður og mun hafa komið út úr lyftu á hótelinu og gengið rakleiðis að hótelbarnum þar sem umræddur starfsmaður stóð. „Starfsmaðurinn sneri sér þá við og Róbert sló hann í andlitið fyrirvaralaust og án ástæðu.“

Halldór segir um 30 vitni hafa verið að árásinni og hafði Fréttablaðið samband við einn þeirra sem staðfesti frásögnina.

Vel skrásett veikindasaga

Fréttablaðið fékk heimild Halldórs til að ræða við lækni hans sem staðfesti að um vel skrásetta veikindasögu sé að ræða. Halldór hafi farið í ítarlegar skoðanir á bráðamóttöku og lungna- og hjartalækningadeild.

Einkenni hans hafi aftur á móti ekki verið hægt að lækna með einföldum hætti. Læknirinn staðfestir jafnframt að Halldór hafi orðið fyrir höfuðhöggi þegar hann féll í yfirlið á heimili sínu, sem hafi orsakað sprungu á höfuðkúpu og minniháttar blæðingu.

Svar Aztiq Fund

Samkvæmt svörum frá Aztiq Fund hefur enginn háttsettur stjórnandi, né starfsmaður í Bandaríkjunum stigið fram og sakað RW um ósæmilega hegðun. Halldór sé eini starfsmaður fyrirtækisins sem hafi sakað Róbert um slíkt. Eins hafi enginn fyrrum starfsmaður skilgreint sig sem uppljóstrara.

Samkvæmt svari Aztiq Fund hefur Halldór ítekað verið staðinn að því að fara með ósannindi og umræddur blaðamaður hafi vissulega haft samband við fjölda fyrrum og núverandi starfsmenn en ekki fundið nein dæmi um ósæmilega hegðun Róberts. Jafnframt hafi engin sátt verið gerð við nokkurn starfsmann í stjórnunartíð Róberts til að forðast dómstóla.

Varðandi orð Halldórs um að hann staðfesti að ásakanir stjórnandans í Bandaríkjunum hafi verið lagðar fram og málinu lokið með sátt, segir í svari Aztiq Fund:

„Maðurinn er greinilega lygari og það er rétt að komi fram að blað sem prentar slíkt er að prenta lýgi.“

„Þetta er því miður uppspuni hjá Halldóri og þykir okkur miður ef Fréttablaðið ætlar að birta ósannindi, sem haft er eftir starfsmanni sem ítrekað hefur verið staðinn af ósannindum.“

Athugasemdir