Hreyfingin Líf án of­beldis for­dæmir við­tal Stöðvar 2 við Kol­brúnu Önnu Jóns­dóttur í Ís­landi í dag en Kol­brún er eigin­kona Ólafs Willi­am Hand sem var dæmdur í tveggja mánaða skil­orðs­bundið fangelsi fyrir of­beldi gegn barns­móður sinni sumarið 2016. Ólafur á­kvað að á­frýja dómi héraðs­dóms í byrjun síðasta árs.

„Maður er dæmdur fyrir líkams­á­rás og brot gegn barna­verndar­lögum fyrir að ráðast á barns­móður sína fyrir framan barn þeirra. Eigin­kona gefur út bók og hljóð­bók sem opin er öllum þar sem hún segir meðal annars barnið ljúga til um at­vik. Fjöldi fólks styður fólkið opin­ber­lega,“ segir í færslu hreyfingarinnar á Face­book.

Í bók Kol­brúnar, sem heitir á­kærð, kemur fram að hún hafi á­valt haldið fram sak­leysi sínu og það hafi komið sér á ó­vart að hún hafi verið á­kærð í málinu en hún var sýknuð á meðan Ólafur var sak­felldur. Lýsing Kol­brúnar á málinu mjög ólík þeirri at­burða­rás sem greint var frá í dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur.

Fá besta tíma í sjónvarpi til að lýsa yfir sakleysi

„Maðurinn kærir barnsmóður sína fyrir að hafa valdið því að hann missti vinnuna, vegna þess dóms sem hann fékk fyrir að hafa ráðist á hana,“ segir í færslunni en einkamál Kolbrúnar og Ólafs gegn barnsmóðurinni og unnusta hennar verður tekið fyrir á næstu dögum.

Kolbrún gaf nýverið út bókina Ákærð.

Þá er það harð­lega gagn­rýnt að um­fjöllunin eigi sér stað þar sem málinu er enn ó­lokið hjá dóm­stólum og sér­stak­lega þar sem barn á hlut í málinu. Að sögn Kol­brúnar bjó barnið til „nýja at­burða­rás“ og sagði föður sinn, Ólaf, vera vondan mann en hún ýjar að því að barnið hafi verið fengið til þess að segja á­kveðna hluti gegn föður sínum.

„Síðan hve­nær fá eigin­konur dæmdra of­beldis­manna plat­form á besta tíma í sjón­varpi allra lands­manna til þess að lýsa yfir sak­leysi þeirra? Mega eigin­konur dæmdra nauðgara þá kannski gera ráð fyrir að fá slíkt pláss líka,“ segir enn fremur. „Við for­dæmum Stöð 2 fyrir að taka þátt í að gefa þessu fólki endur­tekið rými í fjöl­miðlum til þess að beita barn og konu sam­fé­lags­legu of­beldi.“

Uppfært:

Facebook síða Íslands í dag hefur nú tekið út færsluna þar sem viðtalsins var getið og virtist viðtalið ekki hafa verið sýnt í þættinum í dag.