María Helga, formaður Samtakanna '78, Sigurður Júlíus, varaformaður, og Einar Þór, framkvæmdastjóri HIV-Ísland afhentu aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, Karli Blöndal, bréf í dag þar sem skrif Víkverja frá því í Morgunblaðinu í gær voru fordæmd og gagnrýnd.
Víkverji bar í gær saman í skrifum sínum varnaðarorð vegna hlýnunar jarðar og óttann sem skók heimsbyggðina á níunda áratugnum þegar fjölmargir smituðustu af alnæmi og létu lífið í kjölfarið. Víkverji komst að þeirri niðurstöðu í gær að í báðum tilfellum, AIDS og gróðurhúsaáhrifa, hafi verið alið á ótta og að málið hafi mögulega ekki verið „jafn alvarlegt og talið var“.
Sjá einnig: „Ævintýraleg heimska“ Víkverja vekur mikla reiði
Í bréfi Samtakanna ´78 og HIV-Ísland segir að skrif Víkverja séu Morgunblaðinu til háborinnar skammar. Þar segir enn fremur að alnæmisfaraldur sé raunveruleg og aðsteðjandi hætta sem hefur kostað um 35 milljónir lífið, þar af eina milljón árið 2016.
„Sú tala væri enn hærri ef ekki hefði verið háð áratugalöng barátta, með fræðslu og forvarnir að vopni, og þróuð byltingarkennd lyf sem breyttu dauðadómi í möguleikann á heilbrigðu lífi,“ segir í bréfi Samtakanna ´78.
Bæði „Víkverji“ sem og ritstjórn Morgunblaðsins eru hvött til að biðjast afsökunar á „skammarlegum skrifum“. Þá er Víkverji enn fremur hvattur til að stíga fram undir nafni og biðjast afsökunar undir nafni. Segja þau að lokum í bréfi sínu að í því „fælist lágmarksvirðing við ungu mennina sem ekki gátu gengið með okkur í Gleðigöngunni á laugardaginn var.“
Bréfið í heild sinni er aðgengilegt á heimasíðu Samtakanna ´78.