Heimssamtök Transparency standa einhuga með Íslandsdeild Transparency og íslenskum almenningi og segja yfirvöld verða að rannsaka framgöngu Samherja hratt og vel. Nauðsynlegt sé að láta forsvarsmenn Samherja svara til saka og taka út refsingu lögum samkvæmt.

Samtökin segja í yfirlýsingu á vefsíðu sinni að þau hafi verulegar áhyggjur af framferði Samherja gagnvart fjölmiðlafólki og forystufólki frjálsra félagasamtaka, sem fjallað hafa um meint peningaþvætti, skattsvik og mútur Samherja gagnvart kjörnum fulltrúum á erlendri grundu.

Daniel Eriksson, nýr framkvæmdastjóri aðalstöðva Transparency International í Berlín, segir óskiljanlegt að Samherji safni persónuupplýsingum til að sverta orðspor stjórnarmanna Íslandsdeildar Transparency International og annarra sjálfstæðra radda. Öflugt samfélag almennings sem veitir valdi aðhald sé Íslandi nauðsynlegt.

„Fyrirtæki sem vilja sanna sakleysi sitt grípa ekki til ruddalegra bolabragða gagnvart þeim sem segja frá staðreyndum í þágu almennings,“ segir hann.

„Nú þurfa þeir að fara að hysja upp um sig brækurnar og hætta þessu helvítis væli og fara að gera eitthvað í þessu.“

Samherji þurfi að hysja upp um sig brækurnar

Atli Thor Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, segir þessa yfirlýsingu eitt af fyrstu skrefum samtakanna.

„Samherjamálið er risastórt spillingarmál á alþjóðavísu, ekki bara stórt miðað við Ísland og það snertir á fjölda lögsaga. Það hafa verið afleiðingar í Noregi, Færeyjum og Namibíu og Samherji er með viðskipti og eignir í Bretlandi og Þýskalandi,“ Atli Þór í samtali við Fréttablaðið.

Samtökin stefna nú á að virkja deildir í alþjóðasamtökum sem Ísland á aðild að og biðja þær um að þrýsta á yfirvöld.

Atli Thor vekur athygli á því að Samherji sé ekki enn búinn að birta Wikborg Rein skýrsluna, sem lauk rannsókn sinni á starfsemi Samherja í Namibíu í júlí í fyrra.

„Samherji lofaði að birta Wikborg Rein skýrsluna og hafa enn ekki gert það. Þeir eiga að gera það og mega ekki komast upp með að gera það ekki.“

Segir hann fyrirtækið hafa á engum tímapunkti hagað sér eins og fyrirtæki sem er annt um að þetta mál leysist. Segir hann skýringar forsvarsmanna fyrirtækisins, um að þeir hafi ekki haft neina vitnesku um starfsemi Jóhannesar Stefánssonar í Namibíu, vera fáránlegar. Bendir hann á að heilum alþjóðasamningi milli Angólu og Namibíu var breytt í hag Samherja.

„Fyrir utan hvað það er fáránlegt að tala svona þá er það algjörlega utan við efnið hvort þeir vissu það eða ekki. Hann var starfsmaður þeirra og fulltrúi og þegar fyrirtæki fær breyttan alþjóðasamning og millifærir milljónir á stjórnmálamenn, án þess að innra eftirlit taki eftir því, þá er því ekki treystandi í rekstri, hvað þá til að nýta auðlindir almennings. Nú þurfa þeir að fara að hysja upp um sig brækurnar og hætta þessu helvítis væli og fara að gera eitthvað í þessu.“

Delia Ferreira, formaður Transparency International.
Fréttablaðið/Getty images

Atli Thor segir málið varpa ljósi á það sem hann kallar herferð stjórnmálamanna gegn eftirliti og aðhaldi. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur lofað auknu fjármagni svo héraðssaksóknari geti rannsakað Samherjaskjölin en Atli Thor segir það ekki eðlilegt að stofnanir þurfi sífellt að leita til ráðherra eftir bútbót til að rannsaka spillingarmál.

„Á þessu kjörtímabili er búið að veikja skattrannsóknarstjóra og leggja niður og slengja honum inn sem skúffu hjá héraðssaksóknara, sem hefur sjálfur talað um að hann skorti styrk og fjármagn til að sinna sínum hefðbundnu skyldum.“

Segir hann stjórnmálamenn hafa skapað pólitískt ójafnvægi með þeirri ákvörðun að gefa útgerðarmönnum allan umframhagnað að auðlind sem þeir einir geta nýtt.

„Þeir bjuggu með handafli til ofurauðugt fólk og slepptu í framhaldi að setja sérstök bönd á það. Þegar þú skapar svona geðveikislegan auð þá kemur bara sá tímapunktur að það er ekki spennandi lengur fyrir þessa menn að kaup sér Teslu og „penthouse“ , heldur kaupa þeir sér stjórnmálamenn og fjölmiðla. Þess vegna verða stjórnvöld að stíga inn í málið og stjórnmálamenn verða að átta sig á því að þeir eru ekki í vinnu til að vera í góðri stemningu í mötuneytinu í Alþingishúsinu heldur til að verja almenning og viðhalda samfélagssáttmálanum.“

Nú þegar styttist í Alþingiskosningar bendir Atli Thor á að ef stjórnmálamenn geti ekki stigið kröftugri skref en að skrifa einstaka færslur á Facebook, þá sé fullt af öðru hæfu fólki tilbúið til að stýra landinu.