Ungir Píratar fordæma skólastjórnendur fyrir að reyna að halda börnum og ungmennum frá mótmælaaðgerðum, með því að bjóða þeim upp á pítsur. Þetta kemur fram í tilkynningu. Á annað þúsund ungmenni mótmæltu aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum á Austurvelli í síðustu viku.

Ungir Píratar ætla að sýna baráttunni stuðning í verki með því að bjóða upp á pítsu á Austurvelli í loftlagsverkfallinu sem hefst klukkan 12 á morgun. „Engin ungmenni þurfa því að velja á milli pizzu eða ekki-pizzu í hádegismat og geta þess í stað einbeitt sér að stóra málinu - hlýnun jarðar.“

Fyrir mótmælunum hafa landssamtök íslenskra stúdenta staðið, ásamt Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og Ungum umhverfissinnum. Verkfallið er innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg, en skólaverkfall hennar hefur hlotið athygli um heim allan. Hún var meðal annars tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels fyrir baráttu sína fyrir umhverfinu. 

Í yfirlýsingu sem send var út á dögunum kom fram að brögð væru að því að nemendum væri hótað því að fá skróp í kladdann, tækju þeir þátt í mótmælunum fyrir framtíð sinni, og þeim jafnvel boðið upp á pítsur ef þeir færu ekki.

Ungir Píratar segja að það sé skylda okkar að taka stöðuna alvarlega. Lýsa eigi yfir neyðarástandi og láta hið minnsta 2,5% af þjóðarframleiðslu renna til loftlagsaðgerða, í stað þeirra 0,05% sem nú séu notuð.

„Loftslagsbreytingar eru mesta váin sem mannkyn stendur frammi fyrir og það er skylda okkar allra að taka stöðuna alvarlega. Það eru mannréttindi að taka þátt í mótmælum gegn því að Jörðin sé lögð í rúst af manna völdum. Börnin eru framtíðin og Jörðin er þeirra þegar þeir sem eldri eru hverfa frá. Barátta gegn loftslagsbreytingum stendur því börnum og ungmennum sérlega nærri.“