Stéttar­fé­lagið Efling hefur sent hótel­stjóranum Árna Val Sólons­syni erindi vegna hóp­upp­sagna á hótelunum Capi­tal-Inn, City Park Hotel og City Center Hotel. For­svars­menn Eflingar segja upp­sagnirnar ó­lög­legar og sið­lausar.

Í til­kynningu segir að Árni hafi í lok apríl, rétt eftir sam­þykkt nýrra kjara­samninga, sent erindi á allt starfs­fólk þar sem „þess var krafist að það undir­ritaði upp­sögn á starfs­kjörum sínum. Þau gætu valið að vera endur­ráðin á nýjum launa­kjörum, hönnuð „með það að mark­miði að lækka launa­kostnað“.“ Ef það sam­þykkti ekki á staðnum var það á­litið jafn­gilda upp­sögn.

„Þetta er að okkar mati full­kom­lega sið­laust at­hæfi,“ segir Viðar Þor­steins­son, fram­kvæmda­stjóri Eflingar. „Við erum ný­búin að undir­rita kjara­samninga við Sam­tök at­vinnu­lífsins, sem fyrir­tæki Árna eru aðilar að. Þeir samningar byggja á því að hækka laun og bæta kjör fólks. Blekið er ekki þornað á samningnum þegar hann reynir svo að svíkja starfs­fólk sitt um þær kjara­bætur. Þar að auki er á­kvæðum laga um hóp­upp­sagnir ekki fylgt.“

Sjö daga frestur til að bregðast við

Efling segist hafa staðið í stappi við Árna Val nokkrum sinnum áður. Meðal annars vegna fram­kvæmda við við­byggingu á hótelinu City Park Hotel í Ár­múla sem þau segja að farið hafi fram án til­skilinna leyfa. Vinnu­eftir­litið lokaði vinnu­staðnum því þar var talin „veru­leg hætta“ fyrir „líf og heil­brigði starfs­manna“. Orða­skak átti sér síðan stað á milli Árna Vals og Sól­veigar Önnu Jóns­dóttur, formanns Eflingar, skömmu áður en hótel­þernur fóru í verk­fall 8. mars. Þá áttu sér stað at­kvæða­greiðslur um verk­fallið.

For­svars­mönnum um­ræddra hótela hefur verið veittur sjö daga frestur til að bregðast við og draga ó­lög­mætar upp­sagnir sínar til baka. Efling á­skilur sér allan rétt til launa­krafna á hendur hótelunum fyrir hönd starfs­fólks í sam­ræmi við lög og kjara­samninga. Efling hefur aukin­heldur óskað eftir við­brögðum frá Sam­tökum at­vinnu­lífsins.