Fjallað var um mál albönsku fjölskyldunnar á þingi í dag. í það minnsta tveir þingmenn sem fordæmdu brottvísun þeirra. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, og Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, voru harðorð í garð yfirvalda.
Jón Steindór sagði í ávarpi sínu að hann trúði því ekki að svona væri staðið að verki.
„Í morgun var 26 ára albönsk kona, komin nærri 9 mánuði á leið send úr landi ásamt tveggja ára barninu sínu og eiginmanni. Hún var send úr landi þrátt fyrir að ljósmæður og læknar Landspítalans legðust gegn því í nótt að hún myndi fljúga. Á meðan konan var inn á spítala beið lögreglan með blikkandi ljós við spítalann,“ sagði Jón Steindór.
Hann benti á að samkvæmt svörum Landlæknisembættisins til Stundarinnar sé það litið „alvarlegum augum“ að ráðleggingum sérfræðinga Landspítalans hafi ekki verið hlýtt, þegar konan var flutt úr landi í nótt. Konan sé í áhættuhópi og í mjög viðkvæmri stöðu. Þá nefndi hann það einnig að yfirljósmóðir meðgönguverndar sagði það áhættumeðgöngu þegar konur í viðkvæmri stöðu hælisleitenda ganga með barn undir belti, og því er áhættusamt fyrir þær að ferðast.
„Þessu verður að breyta – aðfarir af þessu tagi mega ekki endurtaka sig. Þær eru hneysa,“ sagði Jón Steindór.
Hann sagði ábyrgðina hjá dómsmálaráðherra og ríkisstjórn. Það þýddi lítið að tala fallega og vilja reka „mannúðlega stefnu gagnvart“ flóttafólki og hælisleitendum en láta svo þessi vinnubrögð viðgangast.
„Mér er misboðið,“ sagði hann að lokum.

Fordæmir ákvörðun yfirvalda
Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, tók til máls á eftir Jóni Steindóri.
„Konan er í áhættumeðgöngu og í sérstaklega erfiðri stöðu hvort tveggja líkamlega og félagslega,“ sagði Helga Vala og sagði konuna á meðan hún dvaldi hér hvorki hafa hitt lækni né ljósmóður þar til seint í gær. Hún sagði að fjölskyldan hefði treyst því að þeim yrði ekki vísað brott nema niðurstaða væri komin í mál þeirra og að íslensk stjórnvöld myndu ekki stefna lífi konunnar og ófædds barns henna rí hættu á lokaviku meðgöngu „með því að láta hana fljúga langa leið frá Íslandi til heimalands mögulega með millilendingu“ með aukinni hættu fyrir þau.
„En þar skjátlaðist fjölskyldunni,“ sagði Helga Vala sem sagði yfirvöld hafa virt að vettugi ráðleggingar lækna og ljósmæðra á Landspítalanum um að hún skyldi ekki send í flug og þá skoðun að það væri ekki óhætt fyrir hana að fljúga. Frekar hefði verið stuðst við vottorð sem hafi verið gert af lækni Útlendingastofnunar fyrir um þremur vikum þar sem fram kom að konan væri „ferðafær“ eða á ensku „fit to fly“.
Helga Vala sagði að lokum að þetta teldi ríkisstjórnin „mannúðlega“ stefnu og fordæmdi ákvörðun yfirvalda.
„Þetta er algerlega óboðlegt og ómanneskjulegt og ég fordæmi þessi vinnubrögð Útlendingastofnunar, alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, læknis á móttökumiðstöð Útlendingastofnunar og ríkisstjórnarinnar allrar sem lætur slíkt gerast á sinni vakt.“