Þing­menn Sam­fylkingarinnar, Við­reisnar og Mið­flokksins í utan­ríkis­mála­nefnd Al­þingis lögðu fram bókun um á­rásir á ó­breytta borgara á svæðum Ísraels og Palestínu­menn á fundi nefndarinnar í morgun. Að minnsta kosti 219 Palestínu­menn og 12 Ísraels­menn hafa látist í á­tökunum síðast­liðna daga.

„Þing­menn utan­ríkis­mála­nefndar for­dæma hvers kyns á­rásir á ó­breytta borgara í á­tökum undan­farna daga á svæðum Ísraels og Palestínu­manna. Þing­mennirnir leggja á­herslu á að al­þjóða­lög og mann­réttindi séu virt í hví­vetna og að öryggi al­mennings verði tryggt,“ segir í bókun þing­mannanna.

Leggja eigi niður vopnin strax

Þá segir að það sé ó­líðandi að loft­á­rásum sé beitt gegn sak­lausum borgurum og vísað til þess að fjöldi barna hafi látist í á­tökunum, sem eru þau verstu frá árinu 2014. „Al­þjóða­sam­fé­lagið verður að gefa skýr skila­boð um að leggja eigi niður vopn strax og að frið­sam­legar lausnir í deilunni milli Ísrael og Palestínu sé eina lausnin.“

Þingmenn nefndarinnar hvetja enn fremur til þess að utan­ríkis­ráð­herrar Norður­landa beiti sér á al­þjóða­vett­vangi og ríkis­stjórn Ís­lands komi neyðar­að­stoð og hjálpar­gögnum til nauð­staddra á svæðinu. Áheyrnarfulltrúi Pírata í nefndinni studdi við bókunina en þing­menn VG, Fram­sóknar, og Sjálf­stæðis­flokksins studdu ekki við bókunina.

Blaðamaður meðal látinna í dag

Á­tökin milli Ísrael og Palestínu hafa nú verið linnu­laus í rúma viku en Ísraels­her hélt á­fram að skjóta flug­skeytum að Gaza í morgun. Að minnsta kosti fjórir Palestínu­menn létust í sprengingunum, þar á meðal blaða­maður, að því er kemur fram í frétt Al Jazeera. Þá skutu palestínskir hópar á Ísrael en enginn virðist hafa særst þar.

Ekki hefur tekist að koma á vopna­hléi milli Ísraels­hers og Hamas-sam­takanna á Gaza en Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísraels, úti­lokaði ekki að á­standið myndi stig­magnast enn frekar. Banda­ríkin hafa beitt sér gegn því að öryggis­ráð Sam­einuðu þjóðanna gefi út sam­eigin­lega yfir­lýsingu þar sem vopna­hlés er krafist.