Mótmælendur í kínverska sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong brutu sér í gær leið inn í þinghús borgarinnar eftir umsátur, brutu rúður og krotuðu á veggi. Þá voru málverk af leiðtogum rifin niður af veggjum hússins og húsgögn eyðilögð, samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins. Gærdagurinn var einkar táknrænn þar sem 22 ár voru liðin frá því Bretar skiluðu Hong Kong til Kína.

Gærdagurinn var einn sá harðasti í mótmælaöldunni sem hefur dunið yfir borgina vegna frumvarps stjórnvalda er myndi heimila framsal til meginlands Kína. Hundruð þúsunda hafa mótmælt frá því í marslok og hafa á áttunda tug særst í aðgerðum lögreglu. En þótt frumvarpið hafi verið lagt til hliðar halda mótmæli áfram. Þess er krafist að tugir handtekinna mótmælenda verði leystir úr haldi og að Carrie Lam, æðsti embættismaður Hong Kong, segi af sér.

Samkvæmt South China Morning Post voru þeir óeirðalögreglumenn sem gættu þinghússins horfnir þegar mótmælendur komust loks inn í þinghúsið í gær. Þar fengu mótmælendur að vera nokkuð óáreittir tímum saman þar til hundruð lögreglumanna mættu á vettvang upp úr miðnætti.

Mótmælendur höfðu þá allflestir farið aftur út á húsinu. Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda fyrir utan húsið. Lögregla skaut táragasi en mótmælendur hentu grjóti og eggjum.

„Í dag veittust sumir mótmælendur að lögreglu frá morgni til kvölds. Þeir gerðu áhlaup á lögreglu og veittu almannaöryggi þannig mikið högg. Sumir róttækir mótmælendur gerðu áhlaup á þinghúsið með miklu offorsi. Þessir mótmælendur stefndu lögreglu og almenningi í alvarlega hættu og ofbeldi sem þetta er óásættanlegt í okkar samfélagi,“ sagði í yfirlýsingu frá stjórnvöldum.

Lam ávarpaði borgarbúa í gær og hét því að vinna að því að borgin yrði aftur söm. Hún sagði afmælisdag þess að Bretar hurfu á braut veita tækifæri til þess að horfa um öxl en jafnframt til framtíðar. „Það er mikið verk fyrir stafni svo við getum bætt lífskjör þeirra rúmu sjö milljóna sem byggja Hong Kong,“ sagði hún.

Enn fremur vakti Lam máls á mótmælaöldunni. Sagði hana stefna hagkerfi Hong Kong í hættu og að stjórnvöld þyrftu að vanda vel til verka.